Rétt rúmlega tvítugur maður var í gær sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir líkamsárás á starfsmann Nettó í október árið 2020, þegar árásarmaðurinn var aðeins 19 ára gamall.
Er árásamaðurinn sagður hafa farið inn í Nettó-verslunina og tekið þar vörur að verðmæti 1.265 krónur og yfirgefið versluna án þess að greiða fyrir vörurnar. Þá hafi starfsmaður verslunarinnar elt hinn ákærða út og haft afskipti af honum fyrir framan verslunina. Þá hafi hinn ákærði veist að starfsmanninum með ofbeldi og slegið hann með krepptum hnefa ítrekað í andlit, allt með þeim afleiðingum að starfsmaðurinn hlaut mar frá vinstra gagnauga niður á kinnbein, skrapsár á kinn, eymsli við netfrót og skrapsár á nefi.
Í dómnum kemur fram að ekki tókst að birta manninum ákæruna en honum var birt fyrirkall þann 28. júní í sumar. Sækjandi í málinu, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, telur að maðurinn hafi farið frá Íslandi til Hollands en ekki er vitað um dvalarstað hans þar.
Eins og gefur að skilja, mætti maðurinn ekki fyrir dóm og var réttað yfir honum að honum fjarstöddum. Var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.