Það er alls ekki víst að Manchester City sé betra lið með sóknarmanninn Erling Haaland innanborðs.
Þetta segir Dietmar Hamann, fyrrum leikmaður Liverpool, en Haaland kom til Man City í sumar frá Dortmund og er með 22 mörk í öllum keppnum.
Man City stefnir á að vinna Meistaradeildina á þessu tímabili en það er keppni sem félagið hefur aldrei unnið.
Hamann segir að það sé ekki gefið að Englandsmeistararnir séu sterkari í dag en áður og það þurfi að koma í ljós í lok tímabils.
,,Ef þú ert með leikmann sem skorar 40 mörk á tímabilinu þá auðvitað geturðu treyst á hann,“ sagði Hamann.
,,Hvort Man City sé betra með hann í liðinu er óljóst, við þurfum að dæma það í lok tímabils. Þeir hafa ekki unnið Meistaradeildina og það er ein af ástæðunum fyrir því að hann er þarna.“
,,Jafnvel þó að Haaland hafi skorað 16 eða 17 mörk í úrvalsdeildinni þá er ekki hægt að dæma stöðuna ennþá hvort hann hafi bætt liðið eða ekki.„