Manchester United virðist vera að skoða það að fá sér hægri bakvörð í janúar, ef marka má ensku blöðin í dag.
Það eru þeir Benjamin Pavard og Max Aarons sem eru orðaðir við United í dag.
Pavard er 26 ára gamall og á mála hjá Bayern Munchen, þar sem hann hefur verið síðan 2019.
Mirror segir Frakkann horfa sér til hreyfings. Samningur hans rennur út sumarið 2024. United hafði áhuga á honum í sumar og gæti endurvakið áhuga sinn.
Pavard getur leikið í stöðu miðvarðar sem og í bakverðinum.
Þá er Max Aarons hjá Norwich orðaður við United í The Sun.
Blaðið segir Erik ten Hag, stjóra Rauðu djöflanna, vilja annan bakvörð til að veita Diogo Dalot samkeppni. Framtíð Aaron Wan-Bissaka er sögð liggja annars staðar.
Þar gæti Aarons reynst góð lausn. Hann hefur lengi verið orðaður frá B-deildarliði Norwich.
Samningur hans rennur einnig út sumarið 2024. Hann er falur fyrir um tíu milljónir punda.