Vaxtarræktarkonan Sara Miller, sem hét áður Sara Piana, gerir upp hjónaband hennar og vaxtaræktarjötunsins heitins Rich Piana í viðtali á Mbl.is.
Sara og Rich giftu sig í september 2015 og skildu að borði og sæng árið 2016, en voru enn þá gift þegar hann féll frá. Rich veiktist á heimili sínu í Flórída í ágúst 2017 og var haldið sofandi í öndunarvél um tíma.
Sjá einnig: Sara minnist Rich Piana – „Við áttum svo margar góðar minningar en líka erfiðar“
Sara flutti aftur til Íslands fyrir rúmlega tveimur árum eftir margra ára dvöl í Bandaríkjunum, en hún flutti upphaflega erlendis til að flýja ofbeldissamband við alræmdan handrukkara hér á landi.
Sjá einnig: Sara Heimis lýsir ofbeldissambandi við alræmdan handrukkara
Sara sakar fyrrverandi eiginkonu Rich, Jane, um að falsa erfðaskrá hans. „Mér skilst að rithandarsérfræðingar hafa staðfest [að hún] sé fölsuð,“ segir Sara og bætir við að erfðaskráin sé í höndum lögreglunnar í Bandaríkjunum sem rannsakar andlát hans.
View this post on Instagram
Sara segir að Jane hafi ekki þolað hana og hafi grafið undan sambandi hennar og Piana frá upphafi. „Hún var alltaf svo hrædd um að ég myndi taka alla peninga og allt af honum, en síðan endaði hún á því að taka allt eftir að hann dó,“ segir hún.
„Jane tók yfirhöndina í öllum málum enda skilur enginn af hverju hann hneig niður né féll frá, þetta er allt talið mjög grunsamlegt.“
Sara segir að eftir að hún hafi farið frá Rich hafi Jane lagt inn pappíra til að fá giftingu þeirra ógilda – sem hún fékk í gegn.
„Ég réði því lögmann til að fá ógildinguna afturkallaða þar sem hún átti engan rétt á að skipta sér af okkar sambandi. Þetta var á milli mín og hans. Við vorum því gift þegar Rich féll frá, ég er með gögn því til sönnunar,“ segir Sara í samtali við Mbl.is.
Sara er nú gift Chris Miller, þau voru saman í fjögur ár áður en hún flutti til Íslands. Þau hættu saman því hún vildi einbeita sér að sjálfri sér en ástin sigraði. Þau byrjuðu þau aftur saman og giftu sig nýlega.
„Ég breytti því eftirnafni mínu í Miller og hef því skilið „Piana pakkann“ eftir í fortíðinni. Nú eru nýir og æðislegir tímar fram undan,“ segir hún.