Íslenskur tippari tippaði á rétta markatölu í átta af þrettán getraunaleikjum sem voru á XG getraunaseðlinum á laugardaginn. Vinningsupphæðin fyrir átta rétta er rúmlega 900 þúsund krónur og með aukavinningum fyrir sjö og sex leiki rétta fer vinningurinn í 1.1 milljón króna.
Þess má geta að vinningsupphæðin fyrir alla 13 leikina rétta er um 670 milljónir króna en enginn tippari var með allla 13 leikina rétta.
Annar tippari reyndist getspakur á Sunnudagsseðlinum þegar hann fékk 13 rétta og rúmlega 900 þúsund krónur í vinning. Auk þess fékk hann tæplega 300.000 krónur í aukavinninga fyrir 12, 11 og 10 rétta leiki. Samtals var vinningsupphæðin rúmlega 1.1 milljón króna.