Búið er að aflýsa Með allt á hreinu kvikmyndatónleikum sem áttu að fara fram þann 11. nóvember næstkomandi í Hörpu. Ástæðan fyrir því er sú að Egill Ólafsson, söngvari Stuðmanna og einn ástsælasti listamaður Íslands, getur ekki sungið vegna veikinda. Þetta kemur fram í tilkynningu sem miðahafar fengu en Fréttablaðið greindi frá.
„Egill harmar að þurfa að segja sig frá þessum viðburði og biðst velvirðingar, en þar sem hann getur ekki lengur stólað á röddina vegna Parkinsonsjúkdóms telur hann best að koma hreint fram og játa sig vanmáttugan,“ segir í tilkynningunni sem um ræðir.
Parkinson er taugahrörnunarsjúkdómur sem hefur áhrif á þær taugafrumur í heilanum sem stjórna hreyfingu. Á vef Parkinsonsamtakanna kemur fram að sjúkdómurinn sé ekki talinn vera lífsógnandi en að hann hafi áhrif á lífsgæði. „Sum einkenni sjúkdómsins geta gert fólk viðkvæmara við öðrum sjúkdómum en í flestum tilfellum dregur parkinson ekki verulega úr lífslíkum.“
Þá segir einnig í tilkynningunni að allir miðar verði endurgreiddir. Á allra næstu vikum munu Stuðmenn svo tilkynna nýtt verkefni í tilefni 40 ára afmælis Með allt á hreinu.