Mál Gylfa Þórs Sigurðssonar er áfram í rannsókn og staðan hefur ekkert breyst. Þetta segir lögreglan í Manchester í svari við fyrirspurn RÚV.
Gylfi var handtekinn í júlí í fyrra, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Hann var svo laus gegn tryggingu, en hún átti að renna út í sumar. Þá hefðu nýjar upplýsingar átt að berast um málið en allt kom fyrir ekki.
Gylfi hefur verið í farbanni frá Bretlandi frá því hann var handtekinn.
Sigurður Aðalsteinsson, faðir Gylfa Þórs sagði, í samtali við Fréttablaðið á dögunum að það geti ekki gengið í réttarríki að menn séu látnir dúsa í eitt og hálft ár erlendis án dóms og laga. Hann gagnrýnir utanríkisráðuneytið, sakar það um útúrsnúninga og segir það virðast sem svo að það hafi ekki áhuga á að aðstoða fjölskyldu Gylfa.
RÚV óskaði eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu þess efnis hvort það væru til fordæmi fyrir því að ráðuneytið beitti sér fyrir því að Íslendingur, sem væri til rannsóknar eða hefði verið ákærður og sætti rannsóknargerðum vegna þessa, kæmi til landsins áður en dómur félli.
Svarið var á þann veg að eitt dæmi sé til um að íslensk stjórnvöld hafi blandað sér í og stutt mál íslensks ríkisborgara erlendis. Sá hafði hlotið alþjóðlega vernd og síðar íslenskan ríkisborgararétt en var handtekinn í Króatíu á grundvelli handtökuskipunar frá Rússlandi.
Á tíma handtöku var Gylfi leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni. Hann var settur í leyfi en samningur hans rann svo út í sumar. Gylfi hafði einnig verið fastamaður í íslenska landsliðinu. Hann hefur hins vegar ekkert spilað frá handtökunni.