Maður sem hefur sent Reece James rasísk skilaboð á samfélagsmiðlum frá því í febrúar hefur verið fundinn. Er hann staddur á Mið-Austurlöndum. Þetta kemur fram í fjölmiðlum í Englandi í dag.
Hinn 22 ára gamli James hefur þurft að þola kynþáttaníð af hendi mannsins í um átta mánuði. Hann hefur rætt við lögreglu í Englandi og ytra vegna þess og nú virðist loksins sem svo að manninum verði náð og væntanlega refsað fyrir hegðun sína. Talið er að hann verði handtekinn.
James er leikmaður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Hann leikur í stöðu hægri bakvarðar. Kappinn hefur sannað sig sem einn sá besti í sinni stöðu undanfarin ár.
Kynþáttaníð í garð knattspyrnumanna er vandamál sem fer sífellt stækkandi og virðist erfitt að taka á.