Klukkan var að nálgast fjögur í nótt þegar tilkynnt var um innbrot á veitingastað í miðborg Reykjavíkur. Ekki var þó allt sem sýndist. Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að þarna hafði maður sofnað ölvunarsvefni á salefni veitingastaðarins. Hafði hann verið í starfsmannagleði með vinnufélögum sínum. Þegar maðurinn vaknaði var búið að loka veitingastaðnum og þegar hann reyndi að komast út fór innbrotskerfið í gang.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þar segir einnig frá því að tvær erlendar konur voru handteknar á hóteli í miðborginni, grunaðar um fjársvik. Voru þær vistaðar fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.
Tilkynnt var um slys á veitingastað í Breiðholti um hálftvöleytið í nótt. Maður datt í stiga, hlaut áverka á höfði og missti meðvitund. Var hann fluttur á bráðadeild með sjúkrabíl til aðhlynnningar.
Umferðarslys varð í hverfi 113 laust fyrir kl. 19 í gær. Bíl var ekið á 9 ára barn sem fékk minniháttar áverka á höndum og víðar. Mikil hálka var á vettvangi. Sjúkrabíll kom á vettvang en ekki var talin ástæða til að flytja barnið á sjúkradeild til frekari aðhlynningar.