Leikarinn fyrrverandi, Þórir Sæm, upplýsir í opinni Facebook-færslu í kvöld að hann hafi verið útilokaður af helstu stefnumótaforritum, að ósekju.
Viðtal Kveiks við Þóri í fyrra vakti mikla athygli og deilur. Hann lýsti því að ósiðleg myndasending hans til unglingsstúlkna hefði leitt til þess að hann hafi ekki bara misst atvinnu sína sem leikari heldur fengi hann enga aðra vinnu. Um mistök hefði verið að ræða og stúlkurnar hefðu átt frumkvæði að samskiptunum.
Eftir þáttinn stigu fram ungar konur sem lýstu því að Þórir hefði átt í ástarsamböndum við þær þegar þær voru mjög ungar og mikill valda- og aldursmunur hefði einkennt samböndin.
Í færslu sinni segir Þórir að þetta sé smámál í stóra samhenginu en það hitti hann samt einstaklega illa fyrir og fylli hann vonleysi. Veltir hann því fyrir sér hvort heimurinn væri betri staður án hans:
„Það er búið að loka mig frá dating appinu Smitten.
Bumble og Tinder líka.
Ég má ekki hitta nýtt fólk.
Þessi öpp segja öll að ég hafi brotið community guidelines og ég fæ engar útskýringar á því þó ég leggi mig eftir því og reyni af veikum mætti að berjast við þetta óréttlæti. Senda einhverja tölvupósta með lamað baráttuþrek.
Auðvitað er það óþolandi að þurfa trekk í trekk að lúta öðrum reglum en annað fólk.
En það virðist vera nóg að tilkynna slæma hegðun þó að hún sé ekki til staðar, og ég skal fullyrða að ég hafi hvorki stuðað neinn á þessum öppum eða verið með einhverjar ógeðslegar yfirlýsingar.
Nógu brenndur er ég af internetinu til að fara varlega. En það er greinilega ekki nóg.
Ég veit ekki til hvers ég skrifa þetta. Þetta eru auðvitað smámunir svona í stóra samhenginu, en einhverra hluta vegna fékk þetta mjög á mig núna.
Ég er einn. Ég er búinn að vera einn allt allt of lengi.
Ég velti því alvarlega fyrir mér stundum hvort þetta væri betri staður án mín. Hvort það væri kannski betra að stimpla sig út bara.
Skrítið hvernig einn lítill dropi fyllir stundum mælinn.“