Á morgun leikur FH sinn síðasta leik á tímabilinu þegar að ÍA mætir í Kaplakrika, en leikurinn hefst klukkan 13:00.
„Við ætlum að nýta tækifærið og heiðra Emil Pálsson. Það var haustið 2010 sem Emil gekk til liðs við FH, þá aðeins 17 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hafði hann þegar leitt lið BÍ/Bolungarvíkur upp úr 2. deild um sumarið. Eins og við vitum var tími Emils hjá FH algjörlega magnaður. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari með FH og tók þátt í Evrópuævintýrum liðsins. Á meðan Emil lék með FH var hann einnig valinn besti leikmaður deildarinnar og spilaði með íslenska landsliðinu, það kom því engum á óvart þegar Emil fór út í atvinnumennsku þar sem hann átti farsælan feril í Noregi,“ segir á vef FH.
Emil fór í hjartastopp á síðasta ári og hafði ætlað að snúa aftur á völlinn þegar hann fór aftur í hjartastopp á æfingu með FH.
„Því miður þurfti Emil að leggja skónna á hilluna í sumar en við FH-ingar gleymum aldrei hans framlagi til félagsins. Emil, takk fyrir minningarnar, titlana og vinskapinn. Hlökkum til að sjá þig áfram í Kaplakrika,“ segir á vef FH.
Emil til heiðurs hefur FH birt þetta fallega myndband.