Þetta er mat hollenskra yfirvalda að því er segir í umfjöllun RTL Nieuws um málið en stöðin hefur kafað ofan í þetta mál. Í umfjölluninni kemur fram að lögreglustöðvarnar séu notaðar til að ofsækja landflótta Kínverja sem halda uppi gagnrýni á stjórnarfarið þar í landi, þess utan eru þær ólöglegar að mati hollenskra yfirvalda.
Kínverjar vísa þessum ásökunum á bug.
Samkvæmt því sem samtökin Safeguards Defenders, sem eru spænsk, segja þá hafa yfirvöld í kínversku héruðunum Fuzhou og Qingtian opnað að minnsta kosti 54 lögreglustöðvar víða um heiminn. Í skýrslu samtakanna eru umsvif Kínverja á þessu sviði kortlögð og fram kemur að lögreglustöðvarnar séu í fimm heimsálfum.
Opinbert hlutverk þeirra er að annast endurnýjun ökuskírteina, vegabréfa og aðstoða brottflutta Kínverja við eitt og annað. En í raun er verkefni þeirra að annast „sannfæringaraðgerðir“ þar sem reynt er að þrýsta á fólk, sem er grunað um að gagnrýna kommúnistastjórnina í Kína, um að snúa aftur heim.
RTL Nieuws segir að í opinberu myndbandi, sem kynnir lögreglustöðvarnar, komi fram að verkefni þeirra sé einnig að „takast á við staðbundna og ólöglega glæpastarfsemi sem tengist Kínverjum í útlöndum“.
Rætt er við ungan mann að nafni Wang Jingyu sem flúði til Hollands frá Hong Kong. Hann sagði að starfsmenn lögreglustöðvar í Hollandi hafi haft samband við hann og beðið hann um að snúa aftur heim til að leysa vandamál sín. Einnig var honum sagt að hugsa um foreldra sína í þessu samhengi. Wang Jingyu er eftirlýstur í Kína.
Hann sagði að í framhaldi af þessu hafi hann orðið fyrir kerfisbundnum hótunum og áreiti sem hann telur að kínversk yfirvöld standi á bak við. Honum hafa borist sms með morðhótunum, ógnandi símhringingar og margar sprengjuhótanir hafa verið gerðar í hans nafni. Lögreglan hefur margoft gert húsleit heima hjá honum vegna þess.