fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Fókus

„Drap litla stúlku. Það var fínt en heitt í veðri” – Átakanleg arfleifð litlu Fanny Adams

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 28. október 2022 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir sem vel þekkja til eða hafa búið í Bretlandi kannast líklegast við orðtakið „Sweet Fanny Adams″ eða „Sweet F.A,″ sem er býsna algengt slangur þar í landi.   

Fanny Adams var raunveruleg manneskja  og sagan að baki frasanum sorglegri en tárum taki.

Hún var átta ára lítil stúlka sem var myrt á afar hrottalegan hátt.

Orðtakið var í upphafi notað meðal sjóliða upp úr 1860 um ólystugt dósakjöt af óþekktum uppruna, sem boðið var upp á í messanum. Það þróaðist svo með árunum í alhliða frasa um eitthvað sem stendur ekki undir væntingum, er lélegt eða bara einfaldlega gjörsamlega ömurlegt.

Fanny Adams

Litlu vinkonurnar

Laugardaginn 24. ágúst árið 1867 fóru þrjár litlar telpur út að leika. Fanny, átta ára, litla systir hennar Lizzie, fimm ára og átta ára gömul vinkona, Minnie.

Aðeins tvær þeirra sneru heim.

Þær bjuggu í friðsælum og fallegum smábæ, Alton í Hampshire á Englandi, þar sem ekki hafði verið framinn glæpur í manna minnum. Flestir þorpsbúa höfðu lifibrauð sitt af ræktun humla eða bjórgerð í nærliggjandi bruggsmiðjum.

Fanny var eitt sex barna hjónanna George og Harriet Adams sem unnu við landbúnað. Fjölskyldan var ekki efnuð en hafði nóg til hnífs og skeiðar og voru börnin vel klædd, vel nærð og þóttu kurteis og almennileg með afbrigðum.  Fanny þótti opið og skemmtilegt barn og gekk afar vel í skóla.

A Hampshire Hop Garden in Victorian times
Humlaakur í Hampshire, hugsanlega sá sami og Fanny fannst í þótt það sé ekki vitað.

Örlagaríkur hittingur

Þennan örlagaríka ágústdag leyfðu foreldrar Fanny og Lizzie, Harriet og George, þeim að fara út að leika enda nóg að gera. Faðir Fanny var á leið að spila krikket með félögum sínum og mamma hennar hafði nóg að gera með yngri systkinin og húsverk. Enda ekkert að óttast í fallega litla þorpinu, þar sem allir þekktu alla.

Við útjarða þorpsins rákust litlu stúlkurnar á hinn 29 ára gamla Frederick Baker. Hann hafði flutt til bæjarins árinu áður og var ritari á lögfræðistofu.

Frederick gaf stúlkunum smápeninga sem hann sagði þær mættu nota til sælgætiskaupa.  Telpurnar þekktu til hans, höfðu oft séð hann í bænum og við messu, og voru óhræddar við að spjalla við hann og taka við aurnum. Þær héldu svo áfram leik sínum og borðuðu brómber sem Frederick hafði safnað í fötu.

Hlustaði vart á orð

Eftir um klukkustund kallaði Frederick þær Minne og Lizzie til sín og bauð þeim meiri peninga ef þær vildu fara og leika sér annars staðar. Án Fanny. Því næst bauð hann Fanny enn meiri aur ef hún vildi koma í göngutúr með sér.  Þegar að Fanny neitaði greip hann telpuna og hljóp með hana út á nálægan akur.

Klukkan var þá um 13:30.

Frederick Baker.

Minnie og Lizzie hlupu heim til móður Minnie og sögðu „mann hafa tekið Fanny″ en móðir Minnie hafði i nógu að snúast, hlustaði vart á orð og sagði stúlkunum að halda áfram að leika sér svo hún gæti lokið húsverkunum í friði.

Stúlkunar gerðu það sem þeim var sagt og það var ekki fyrr en upp úr klukkan fimm um eftirmiðdaginn að nágrannakona tók eftir því að Minnie og Lizzie voru einar á gangi, á heimleið í kvöldmat. Hafði hún sé Fanny með þeim fyrr um daginn.

Stéttskiptingin segir til sína

Nágrannakonan spurði hvar Fanny væri og sagði LizzieFrederick Baker hefði „tekið hana í burtu.” Nágrannakonan flýtti sér heim til Harriet og endurtók sögu Lizzie, að Frederick hefði tekið Fanny.  Spurðu konurnar stúlkurnar hvar þetta hefði gerst og hófu þegar leit.

Þær voru ekki komnar langt þegar að þær mættu Frederick og kröfðu hann svara um hvar Fanny væri að finna.

Frederick sagðist ekkert um það vita, hann hefði síðast séð hana ganga í burtu í þeim tilgangi að kaupa sér sælgæti. Konurnar áttu bágt með að trúa því og hótuðu að kalla til lögreglu. Sagði Frederick það sjálfsagt  og sneri upp á sig.  Þar sem maðurinn var jú hálfgert fyrirmenni, starfandi hvorki meira né minna en á lögfræðistofu, áttu konurnar bágt með að trúa upp á hann lygum.

Jafnvel þótt hann væri augljóslega drukkinn var stéttskipting þessara tíma það rígnegld í hugum fólks að konurnar lögðu ekki í að fara til lögreglu.

Sneru þær því heim og bjuggust við að sjá Fanny fljótlega, með nammi í hönd.

Samtímateikning úr dagblaði þar sem ráninu og morðinu er lýst.

Líkfundurinn

Þegar klukkan var orðin sjö að kvöldi og Fanny hvergi að finna hófu bæjarbúar leit.

Og fljótlega fannst lík Fanny Adams á nálægum akri.

Aðkoman var hryllileg. Höfuð Fanny hafði verið skorið af og sett á girðingarstaur. Líkami hennar hafði verið skorinn í stykki sem lágu eins og hráviði í blóðinu allt i kringum staurinn. Það fór ekki á milli mála hvað telpan hafði gengið í gegnum áður en dauðinn hafði miskunnað sig yfir hana.

 Sem betur fer komu foreldrar Fanny ekki að líkinu en þegar að George heyrði af líkfundinum rauk hann heim, sturlaður af sorg, og náði í byssu sína. Hélt hann því næst í leit að Frederick Baker en var stöðvaður af vinum og vopnið tekið af honum.

Dagbókarfærslan

Frederick Baker var handtekinn þetta sama kvöld á skrifstofu sinni og hélt staðfastlega fram sakleysi sínu. Það var þó til lítils því ekki aðeins var um að ræða framburð telpnanna heldur voru blóðblettir á fötum hans.

Reiði almennings var slíkt að það þurfti að kalla út hópa lögreglumanna til að umlykja stöðina sem Frederick var í haldi til að múgurinn réðist ekki inn og dræpi Frederick.

En það sem sennilegast negldi síðasta naglann í kistu Frederick Baker var dagbókarfærsla hans daginn sem morðið var framið. „Drap litla stúlku. Það var fínt en heitt í veðri.”

Það tók kviðdóm að eins korter að dæma Frederick sekan og þegar að dómari spurði hvort hann hefði einhverju við að bæta, lýsti Frederick yfir sakleysi sínu.

Fjórum mánuðum eftir morðið, á aðfangadag 1867, var Frederick Baker hengdur fyrir glæp sinn.

Minnie og Lizzie við gröf vinkonu sinnar.

Átakanleg arfleifð

Það voru ekki bara íbúar Alton sem grétu litlu Fanny. Allt Bretland var í áfalli yfir þessum hryllilega glæp sem var á forsíðum allra blaða sem lýstu líkfundinum í smáatriðum.

Tæpum tveimur árum síðar var farið að bjóða meðlimum enska sjóhernum upp á niðursoðið kindakjöt. Þótti það svo vont að það fór á stað „brandari” um að það hlyti að vera jafnvel bragðverra en „leifarnar af Fanny Adams.”

Og þannig byrjaði þessi ósmekklegi frasi sem enn lifir góðu lífi, ríflega 150 árum síðar.

Arfleifð litlu stúlkunnar er að nafn hennar varð að samheiti rusls eða viðbjóðs.

Hversu átakanlegt er það?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 21 klukkutímum

Fyrirsætan gagnrýnd harðlega: Kærastinn er 16 ára en hún 21 árs

Fyrirsætan gagnrýnd harðlega: Kærastinn er 16 ára en hún 21 árs
Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

Jói Fel trúlofaði sig á Miami – „Allt eins og það á að vera“

Jói Fel trúlofaði sig á Miami – „Allt eins og það á að vera“
Fókus
Í gær

Halla myndi velja fiskibollur í brúnni sem eilífðarmat, leiðist þrif og hreyfingin er Akkilesarhæll

Halla myndi velja fiskibollur í brúnni sem eilífðarmat, leiðist þrif og hreyfingin er Akkilesarhæll
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Smeyk við að fara ein til Íslands eftir að kærastinn lét sig hverfa

Smeyk við að fara ein til Íslands eftir að kærastinn lét sig hverfa
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni