Carlo Nicolini, sem starfar fyrir Shakhtar Donetsk, hefur staðfest áhuga Arsenal á Mykhaylo Mudryk, leikmanni félagsins.
Þessi 21 árs gamli kantmaður hefur vakið mikinn áhuga stærri félaga með frammistöðu sinni á tímabilinu. Arsenal hefur hvað helst verið nefnt sem hugsanlegur framtíðaráfangastaður Úkraínumannsins.
Þó segir Nicolini að Manchester City hafi einnig áhuga.
„Þetta eru tvö félög sem hafa áhuga á leikmanninum. Það eru þó líka önnur félög sem geta borgað fyrir hann eins og ekkert sé,“ segir Nicolini.
„Það eru félög á Englandi, Spáni og í Frakklandi. Það þarf samt að borga rétta upphæð. Ásamt Mbappe, Leao og Vinicius er Mudryk sá besti í sinni stöðu í dag.“
Það verður alls ekki ódýrt fyrir félög að fá Mudryk.
„Við verðmetum hann á meira en Antony kostaði Manchester United. Hann fór á 100 milljónir evra. Við þurfum ekki að selja hann. Ef þú vilt leikmann sem getur skipt sköpum fyrir þig þarftu að borga,“ segir Nicolini.