Einelti hefur mikið verið í umræðu og fréttum undanfarið enda virðist vandinn mikill, djúpstæður og útbreiddur. Rafrænt ofbeldi virðist hafa aukið enn á þær ofsóknir sem þolendur eineltis búa við og er ákallið um úrbætur hávært þessa dagana. Að sögn Sigursteins Snorrasonar bardagalistaþjálfara er kunnátta í bardagalistum og sjálfsvarnaríþróttum góð forvörn gegn einelti því hún byggir upp sjálfstraust þolandans.
Sigursteinn hefur þjálfað börn og ungmenni í baradagalistum meira og minna frá unglingsaldri. Árin 2000 til 2002 starfaði henn sem grunnskólakennari en hætti eftir tveggja ára feril, meðal annars vegna þess agaleysis sem honum fannst ríkja í grunnskólum:
„Ein af stærstu ástæðunum fyrir því að ég byrjaði að æfa bardagalistir var einelti sem ég lenti í sem barn. Það var ekkert í líkingu við það sem virðist viðgangast í dag en samt nóg til að ég fékk nóg.“ Sem grunnskólakennari segist Sigursteinn ítrekað hafa fengið þessi svör frá eineltisseggjum: „Þú mátt ekki gera neitt við okkur.“
Eftir að hafa hætt kennslu einbeitti Sigursteinn sér að þjálfun í sjálfsvörn og bardagalistum fyrir börn og unglinga. „Ég hætti sem grunnskólakennari næsta vor, meðal annars vegna þess agaleysis sem mér finnst ríkja í grunnskólum. Núna vil ég einbeita mér að því að bæta agann á meðal barna og ungmenna í gegnum íþróttastarf. Sjálfsvörn er ekki eingöngu það að verja sig líkamlega, heldur mun frekar andlega og félagslega. Að láta ekki bjóða sér hvað sem er. Ég hef einnig unnið mikið með börnum sem hafa verið gerendur í slíkum málum og þú mátt trúa því að þeim líður ekki vel, hvorki með það sem þau eru að gera öðrum né almennt í sínu daglega lífi. Eineltið og ofbeldið er þeirra útrás og kall á hjálp,“ segir Sigursteinn.
Sigursteinn rekur bardagaskólann Mudo Gym í Víkurhvarfi 1 og þar læra börn á aldrinum 6 til 14 ára bardagalistir. Iðkendur voru, þegar mest lét, allt að 300 en þeim fækkaði mikið í Covid-faraldrinum og eru núna um 150. Sigursteinn útskýrir hvernig óttaleysi og sjálfstraust vinni gegn einelti:
„Maðurinn er hluti af náttúrunni, maðurinn er dýr, í villtri náttúru verða þau dýr sem geta ekki varið sig undir. Sú orka sem óttaleysi og sjálfstraust senda frá sér verður til þess að hrekkjusvínin leita annað. Þau velja sér alltaf þann sem horfir niður, getur ekki myndað augnsamband, er með axlirnar niður, bara það að geta rétt úr öxlunum er skref í rétta átt. Að rétta úr öxlunum og þora að mynda augnsamband er lykilatriði. Ég orða þetta þannig við yngstu börnin að við þurfum að sjá tígrisdýraaugun en ekki kanínuaugun.“
Sigursteinn segir að það að vita að maður geti varið sig færi börnunum sjálfstraust og óttaleysi sem skíni af þeim. Sigursteinn segir að framferði eineltisseggja stafi ekki af því að þeir séu stærri og sterkari og geti ráðið við aðra heldur af þrá þeirra sjálfra eftir viðurkenningu:
„Þeim líður illa og þeir þrá viðurkenningu. Í gamla daga, þegar ég var að alast upp, var tekið hálstak og maður sagði „ég gefst upp“ og þá var það búið. Núna er verið að skjalfesta ofbeldisverkin á netinu. Þessir lambúshettustrákar sem dreifðu myndbandi af sér, maður sé langar leiðir að þeir voru að reyna að pródúsera sitt eigið gangstera-myndband, svona miðað við hvernig þeir létu. Þetta er orðin einhver manndómsvígsla sem er skjalfest á TikTok.“
Sigursteinn vísar þarna til myndbands sem greint var frá í frétt DV í gær um einelti gegn 12 ára dreng í Breiðhoti:
„Það þarf að koma þessu óttaleysi inn í höfuðið á krökkunum,“ segir Sigursteinn og segir sláandi sögu um hvernig óttaleysi kom í veg fyrir að ung stúlka yrði þolandi raðnauðgara:
„Fyrir um 15 árum var stelpa að æfa hjá mér og á beltaprófi var tekið mjög harkalegt hálstak á henni aftan frá, tak sem hún náði þó að losa sig úr. Pabbi hennar varð brjálaður yfir því sem hann kallaði ofbeldi og við báðumst afsökunar. En þremur árum seinna hringdi hann í mig og þakkaði mér kærlega fyrir að hafa kennt henni á þennan hátt. Þá kom í ljós að hún var fjórða stelpan sem þekktur raðnauðgari réðst á í strætóskýli með nákvæmlega sama hætti. Hann náði að nauðga þremur en hún slapp frá honum þó að hann væri sjálfur þjálfaður í bardagalistum. Hún slapp af því hún var óttalaus, öskraði á móti, sparkaði í hann. Þess vegna slapp hún og var sú eina sem slapp undan honum. Það gilti einu þó að hann kynni bardagalistir, hann var ekki að keppa við hana í íþróttakeppni, hann var að reyna að drottna yfir henni og það tókst honum ekki. Þetta er það sama og hrekkjusvínin eru að reyna að gera, þau eru að reyna að dómínera og þegar einhver stendur á móti er tilgangurinn farinn. En ef einhver lúffar fyrir þeim, sérstaklega fyrir framan aðra, þá finnst þeim þeir hafa stækkað.“
Sigursteinn segir að óttaleysi þess sem veit að hann getur varið sig vera ómetanlegt og það haldi frá eineltisseggjum sem veitist að þeim sem eru óöruggir, hræddir og niðurlútir.
Sigursteinn segir að eineltisgerendur séu oft drengir sem hafi fáar eða engar karlkynsfyrirmyndir í lífinu. Ekki sé karlmaður á heimilinu og enginn karlkynskennari sem kenni þeim í skólanum. „Þessir drengir átta sig ekki á því að sönn karlmennska felst alls ekki í því að nýta sér líkamlega yfirburði gegn öðrum, það er lélegasta tegundin af karlmennsku, það er þessi eitraða karlmennska. En maður á að nota sína styrkleika í lífinu, bara ekki á þennan hátt.“
Sigursteinn segir að barátta gegn einelti sé sér hjartans mál enda hafi hann sjálfur lent í einelti, þó örugglega ekki eins slæmu og því miður tíðkist núna.
„Hundruð eða þúsundir krakka eru að glíma við misalvarlegt einelti. Þegar maður heyrir aftur og aftur að börn vilji taka líf sitt út af einelti þá skynjaður maður hvað ástandið er svakalegt. Það verður að taka á þessu.“
Framlag Sigursteins til baráttunnar er að kenna börnum bardagalistir og sjálfsvörn. Það eflir sjálfstraust þeirra og færir þeim óttaleysi þess sem veit að hann getur varið sig. Það telur hann vera góða forvörn gegn einelti.
„Við tökum allt það góða úr bardagalistunum og fellum það saman við almennar styrktaræfingar þannig að börnin fá að kynnast grundvallaratriðum á borð við armbeygjur, hnébeygjur og rétta líkamsstöðu. Ef barnið verður sterkara andlega og líkamlega, minnka líkur á einelti og mótstöðuafl barnsins í slíkum hremmingum eykst sömuleiðis,“ segir Sigursteinn ennfremur.