Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að símafyrirtækjum sé skylt að afhenda lögreglu upplýsingar um símtöl og netnotkun manns sem rauf nálgunarbann gegn konu sem hann stendur í skilnaði við.
Byggt var á 80. grein laga um meðferð sakamála en hún kveður á um það að heimilt sé í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að veita upplýsingar um símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki.
Lögregla lagði fram mörg dæmi um meint brot mannsins á nálgunarbanni en hann reyndi margsinnis að hafa samband við konuna símleiðis auk þess að senda henni skilaboð. Einu sinni skrifaði hann bréf til konunnar og lét nágrannabarn setja það inn um bréfalúguna. Tilvikin eru tilgreind svo í texta úrskurðarins:
„- 23. júní 2022. Kærði, X reynir að hringja í G úr s. […] (sjá skjáskot)
– 24. júní 2022. Kærði reynir í tvígang að hringja í G úr s. […] (sjá skjáskot)
– 24. júní 2022. Kærði sendir G textaskilaboð/sms (sjá skjáskot meðfylgjandi.)
– 24. júní 2022. Kærði sendir G textaskilaboð/sms (sjá skjáskot meðfylgjandi)
– 25. júní 2022. Kærði sendir G bréf. Lætur barn í hverfinu setja það inn um bréfalúguna.
– 27. júní 2022. Kærði sendir G textaskilaboð/sms (sjá skjáskot meðfylgjandi)
– 6. ágúst 2022. Kærði sendir G textaskilaboð/sms úr símanúmerunum […] og […].
(sjá skjáskot meðfylgjandi).
– 9. ágúst 2022. Kærði sendir H textaskilaboð/sms (sjá skjáskot meðfylgjandi).
– 10. ágúst 2022. Kærði sendir I textaskilaboð/sms. (sjá skjáskot meðfylgjandi).
– 11. ágúst 2022. Kærði sendir I textaskilaboð/sms. (sjá skjáskot meðfylgjandi).
– 11. ágúst 2022. Kærði situr fyrir G og I um kl. 17:00 við […]. (smá mynd meðfylgjandi).“