fbpx
Laugardagur 05.október 2024
Fréttir

Hvers vegna fara konur aftur til ofbeldismanna sinna?

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 26. október 2022 18:00

Linda Dröfn t.v. og mynd úr safni t.h.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að það geti tekið þolendur ofbeldis í nánum samböndum margar tilraunir til að slíta sambandi við gerendur sína, en erlendar rannsóknir sýni fram á að meðaltalið sé um 7-8 skipti.  Þolendur geti verið úr öllum kimum samfélagsins og sé algengur misskilningur að þar séu ákveðnar týpur á ferð.

Undanfarna viku hefur mikið verið rætt um heimilisofbeldi á samfélagsmiðlum og bæði virðist fólk velta fyrir sér hvers vegna konur í slíkri stöðu yfirgefi ekki gerendur sína og hvers vegna þær snúi stundum aftur í slík sambönd eftir að hafa farið. Blaðamaður ræddi við Lindu Dröfn um þessar spurningar. Hvers vegna fara konur ekki frá ofbeldismönnum og hvers vegna snúa þær aftur?

Þetta getur komið fyrir alla

Linda segir algengt að fólk haldi að það séu aðeins ákveðnar tegundir af fólki sem verði fyrir barðinu á ofbeldi í nánu sambandi.

„Mér finnst rétt að það komi strax fram að þær konur sem sækja Kvennaathvarfið, hvort sem það er að koma í dvöl eða til að koma í viðtöl, sem eru mörg hundruð kvenna á ári hverju, eru allar tegundir af konum. Ef þú tekur þverskurð út úr Þjóðskrá þá er það sambærilegt við það ef ég tæki þverskurð úr þeim sem leita hingað yfir árið. Þetta eru konur á öllum aldri, úr öllum stéttum, í hvers kyns stöðu og úr öllum póstnúmerum. Það er engin tiltekin tegund af konu sem festist inni í ofbeldishringnum. Þetta getur komið fyrir alla“

Linda bendir á að samkvæmt rannsókn sem var gerð hér á landi með úrtaki af um 2000 konum hafi rúm 42% prósent kvenna á aldrinum 18-80 ára verið beittar líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á fullorðinsárum og þar af 22 prósent af hálfu maka eða fyrrverandi maka.

Þetta sýni að í öllum hópum sem maður komi í sé líklega einhver sem hafi lent í þessum aðstæðum.

„Þannig þetta er ofboðslega gegnum gangandi og gegnsýrt í okkar samfélagi“

Ofbeldi sem gengur í hringi

Linda segir að ofbeldi í samböndum byggi á svonefndum ofbeldishring, þ.e. sambandið einkennist af hringrás tímabila sem skiptast í hveitibrauðsdaga, spennustig og árásarstig.

„Fyrsta skrefið er mjög oft að konan er einangruð út frá umhverfi sínu. Einnig dæmigert að það byrji með mikilli kæfandi umhyggju og eftirliti og svo tekur gjarnan við afbrýðisemi, niðurlæging og hótanir – þangað til líkamlegt ofbeldi byrjar. Svo fer þetta hring eftir hring. Næst er það eftirsjáin og geðshræringin.“

Og með eftirsjánni komi aftur kæfandi umhyggjan og svo byggist spennan upp á ný þar til ofbeldið hefst aftur og svona gengur þetta í hringi.

 Mynd/ofbeldishringurinn.is

Linda segir að lykilorð í þessu sé að um sé að ræða brot í nánu sambandi. Þarna sé fyrir að fara þessu nána sambandi og konur festist inn í aðstæðum þar sem mikið af tilfinningum er til staðar ásamt mörgu öðru en ofbeldinu einu saman.

„Þá er svo áhugaverð setning sem ein kona sagði: Hann væri í raun fullkominn maki ef það væri ekki fyrir ofbeldið. Í langflestum tilfellum eru þær ástfangnar af þessum mönnum og eru í nánu sambandi við þá, hafa treyst þeim fyrir mörgu í í lífi sínu og í langflestum tilvikum byrjar sambandið á ofboðslega fallegum nótum, fallegu tímabili sem á sér stað í byrjun og kemur aftur inn á milli og þær bíða alltaf eftir að þetta tímabil komi aftur.“

Gerandinn skilgreinir ofbeldið

Þær bíði eftir að svokallaðir hveitibrauðsdagarnir komi aftur. Svo er það oft svo að áður en ofbeldið hefst þá sé það byggt upp smátt og smátt.

„Þetta er byggt upp hægt og bítandi og þetta getur komið aftan að öllum og þá kemur oftast fyrst þessi einangrun. Þú ert einangruð frá vinum þínum. þú ert einangruð frá fjölskyldu þinni og þú verður svo háð þessum aðila. Og það þróast í mörgum tilfellum út í það að aðilinn sem beitir ofbeldinu, gerandinn, er sá sem skilgreinir ofbeldið þannig að þú sért rugluð og þú sért vandamálið og ef þú værir ekki svona eða hinsegin þá myndi þetta ekki vera svona – þetta er náttúrulega þér að kenna og ef þú lagar það sem þú ert að gera vitlaust þá hættir þetta – í hans huga.“

Linda segir að það sé í raun gerandinn sem skilgreini ástandið og oft sé það svo að þegar kona leitar til Kvennaathvarfsins þá átti hún sig ekki sjálf á alvarleika málsins.

„Mjög oft er það fyrsta sem þær segja: Ég ætti kannski ekki endilega að vera hérna að taka tíma af ykkur og pláss, þetta er ekki það alvarlegt sem ég er að upplifa – svo byrjar viðtalið og þetta er bara grafalvarlegt. Þær upplifa oft ekki ofbeldið á þeim alvarlega stað sem það er í raun og veru á, því gerandinn hefur skilgreint það.“

Tekur 7-8 skipti að koma sér út úr sambandinu

Linda segir að svona ofbeldisaðstæður séu flóknar og minnir aftur á að lykilatriði sé þessi nánd. Gerendur hafi þessa nánd til að vinna út frá. Þeir viti hluti um þolendur sína sem aðrir vita ekki og noti gegn þeim og þannig flækjast þolendur inn í ofbeldishringinn.

„Erlendar rannsóknir sýna að það tekur að meðaltali 7-8 skipti fyrir konu að koma sér út úr ofbeldissambandi. Þannig að í mjög mörgum tilvikum eru þær að koma til okkar inn í athvarfið, finna léttinn og börnin eru að upplifa friðinn, en fara samt til baka í ofbeldissambandið.“

Hvers vegna fara þær til baka?

Fyrir því geti verið margar ástæður. Oft er gerandinn búin að einangra þolanda sinn frá öðrum. Oft er um fjárhagslegt ofbeldi að ræða sem erfitt er að komast út úr. Svo eru oft hótanir og stafrænt ofbeldi sem haldi áfram þó konur séu komnar út úr sambandinu.

„Svo er það skömmin yfir því að þurfa að viðurkenna þetta fyrir sjálfri sér og öðrum. Það er þessi mikla von um að ástandið muni batna – þessi bjartsýni. Svo er það oft talað um þessi hræðsla við að missa tökin og það er oft hjá konum sem eru í efri stéttum samfélagsins. Það eru oft forstjórar, framkvæmdastjórar og aðrir sem eru vanar að hafa tök á öllu sem þær gera og stjórn en svo hafa þær enga stjórn á hlutunum heima og eru orðnar vanar því að láta þetta ganga einhvern veginn. Því að fara, að brjóta og rjúfa þennan ofbeldishring, fylgir oft ótti við að missa öll tökin á öllum öðrum þráðum lífsins líka. Að þetta verði domino sem fellur um sig.

Svo er það bara eins og ein sagði í einu viðtalinu – svo er það bara helvítis ástin.“

Ástin sé flókið fyrirbæri sem fylgi ekki alltaf rökum. Eins geti verið til staðar ytri hindranir á borð við fjárhag og í tilvikum kvenna af erlendum uppruna hefur þeim oft verið hótað því að þær missi dvalarleyfi ef þær yfirgefi ofbeldissambandið. Linda leggur áherslu á að það sé ekki rétt. Eins sé konum hótað að börnin verði tekin af þeim og jafnvel óttast þær líka um líf sitt.

„Við það að fara þá á ofbeldið til að margfaldast eða verða mun alvarlegra eftir að þær hafa tekið þessa ákvörðun.  Þá finna gerendurnir að þeir eru að missa tökin.“

Áfallatengslin

Eins getur verið um að ræða flókið fyrirbæri sem á ensku kallast trauma bond, eða áfallatengsl sem eiga sér stað hjá þolendum ofbeldis í nánum samböndum. Linda segir að það sé í dag orðið viðurkennt hugtak sem allir ættu að þekkja en þó virðist því miður enn vera mikil vanþekking um þetta.

„Það er svo mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því hvað þetta eru margar konur af ólíkum uppruna og úr ólíkum stöðum.“

Linda segir að mörgum finnist erfitt að skilja stöðu þeirra sem eru í ofbeldissambandi, hvers vegna þolendur fari ekki frá gerendum sínum og hvers vegna þeir snúi aftur inn í þessar aðstæður.

„Það eru atriði eins og þessi von um að geta breytt manneskjunni af því að þú vilt ekki trúa því að þú hafir fallið fyrir svona manneskju. Það er eitthvað svona: já en hann átti náttúrulega svo erfitt sem barn; hann er ofboðslega góður við börnin og annað og það er þessi von um að: ég sé svo sterk og hann mun breytast við það að búa með mér. Og líka þessi trú: að ef ég breyti einhverju hjá mér þá stoppi ofbeldið.

Það er eitthvað sem er búið að rækta í manni í gegnum sambandið; Ég er eitthvað klikkuð og ef það lagast...“

„Og svo er þetta með hjartað og rökhugsunina“

Svo hafi aðstæður oft rænt konur sjálfstraustinu og fyllt þær vanmætti. Þær efist jafnvel um að nokkur annar hafi áhuga á að vera með þeim enda séu þær farnar að trúa því sem gerendur þeirra hafi innrætt með þeim.

„Og svo er þetta með hjartað og rökhugsunina. Það fer ekki alltaf saman. Þú ert kannski enn ástfanginn af manni sem er að beita þig ofbeldi og ég veit að það er ofboðslega erfitt að skilja það.“

Lykillinn sé að horfa á byrjunina. Þá komi þessi hveitibrauðsdagar þar sem konur eru jafnvel settar upp á stall og jörðin undir þeim nánast tilbeðin. Svo séu þær einangraðar, með þeim vakinn andlegur ótti og spenna og tilfinningar notaðar til að ná af þeim völdum. Þannig séu gerendur komnir með völdin í sínar hendur áður en líkamlegt ofbeldið byrjar. Þetta geti orðið svo gífurlegt að eitt augnaráð geti vakið ótta.

„Þú myndir aldrei vera með manni sem myndi byrja á að slá þig utan undir á fyrsta deiti. Það er búið að leggja þennan grunn í byrjun sem svo fáir skilja“

Fótunum sé í reynd kippt undan þolendum þannig þeir festast í ofbeldishringnum sem myndast í nánum samböndum.

Mikilvægt að taka umræðuna

Linda segir mikilvægt að taka þessa umræðu. Fólk eigi það til að gleyma öllu því sem það hefur lesið þegar það sjálft horfi utan frá á ofbeldismál og taki ekki tillit til þess hversu flóknar aðstæður eru, hversu flókin náin sambönd yfir höfuð geta verið.

„Og við vitum það bara öll sem höfum verið í nánum samböndum, líka þeim sem ekki er ofbeldi í, að þau eru flókin fyrirbæri og draga fram í manni allskonar hliðar sem maður vissi ekki að maður átti. Allt í einu er maður kannski ótrúlega óöruggur en var það aldrei áður. Það er mikið af flóknum hlutum sem gerist innra með manni þegar maður tengist einhverjum náið.“

Linda segir að það sé staðreynd að konur sem eru raunverulega í ofbeldissamböndum snúi aftur til gerenda sinna. Það segi ekkert um konurnar sjálfar. Þær séu áfram góðar mæður, klárar konur en þær eru bara fastar í vítahring sem flókið er að losa sig úr.

„Við erum að taka á móti konum sem við getum bara sjáum langar leiðir að þær eru að búa við ofbeldi og við erum að horfa á þær flytja til baka. Og þetta eru góðar mæður með börnin sín sem fara til baka í aðstæður sem sýnir okkur að þetta eru svo sterk öfl.

Þá er líka mikilvægt að fólk setji sig ekki í dómarasætið og aðstandendur standi með sinni konu og hjálpi henni þegar hún er að standa í því að fara frá maka sínum en séu ekki að dæma þegar þær fara til baka eða halda áfram í ofbeldissambandi því þá verða þau bara fryst úti eins og allir aðrir.

Þetta er bara ferli sem þær þurfa að fara í gegnum og sumar tala um að þær hefðu viljað fá meiri stuðning á meðan aðrar segja; ég þurfti bara að sjá þetta sjálf.

Þær gera sér oft fyllilega grein fyrir stöðunni en þær þurfa að vera komnar á þennan stað og þá fá þær stuðninginn frá okkur. En þegar þær segja við okkur: ég ætla til baka, segjum við bara OK. Það er það eina sem við getum sagt. Við tölum þær ekkert af því.

Og stundum eru bara engin rök á bak við þetta. Þær eru bara ástfangnar og þeim hafði aldrei liðið svona eins og þeim leið með þeim og þeir voru svo góðar við þær og aldrei neinn verið svo góður við þær og sett þær upp á svona mikinn stall og þær vilja komast aftur inn á þann stað.“

Samtök um kvennaathvarf reka neyðarathvörf í Reykjavík og Akureyri sem opin eru öllum konum og börnum þeirra sem flýja þurfa heimili sín vegna andlegs eða líkamlegs ofbeldis. Þolendur og aðstandendur geta haft samband til að fá stuðning og ráðgjöf í síma 561 1205. Einnig er boðið upp á fría viðtalsþjónustu án þess að til dvalar komi.   

Árlega leita til Kvennaathvarfsins yfir 700 konur og börn þeirra í leit að ráðgjöf, aðhlynningu og öruggu skjóli. Árlega dvelja á bilinu 120 – 140 konur í athvarfinu og að meðaltali 100 börn. Meðal dvalartími eru 30 dagar. Dvölin er konunum að kostnaðarlausu.  Einnig er hægt að sækja viðtalsþjónustu án þess að til dvalar komi og voru veitt rúm 1100 slík viðtöl árið 2021.  Aðsókn í slík viðtöl hefur aukist mikið en til samanburðar voru veitt 508 viðtöl árið 2016.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Bjartsýnir stjórnmálamenn vilja byggja flugvöll á virku gossvæði – Fræðimenn setja spurningarmerki við áformin

Bjartsýnir stjórnmálamenn vilja byggja flugvöll á virku gossvæði – Fræðimenn setja spurningarmerki við áformin
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fordæmir viðbrögð Kópavogsbæjar eftir að brotið var kynferðislega á dóttur hennar í Snælandsskóla

Fordæmir viðbrögð Kópavogsbæjar eftir að brotið var kynferðislega á dóttur hennar í Snælandsskóla
Fréttir
Í gær

Húseigendur í Kópavogi sáu ekki til sólar fyrir trjágróðri nágrannans – Tekist á um hæð trjánna á tveimur dómsstigum

Húseigendur í Kópavogi sáu ekki til sólar fyrir trjágróðri nágrannans – Tekist á um hæð trjánna á tveimur dómsstigum
Fréttir
Í gær

Slapp undan milljóna reikningi eftir klúður á bensínstöð

Slapp undan milljóna reikningi eftir klúður á bensínstöð
Fréttir
Í gær

Hyggjast knýja á um íbúakosningu fyrst bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki hana ekki

Hyggjast knýja á um íbúakosningu fyrst bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki hana ekki
Fréttir
Í gær

Þurfa nauðsynlega að ná tali af tveimur ökumönnum vegna banaslyssins á Sæbraut

Þurfa nauðsynlega að ná tali af tveimur ökumönnum vegna banaslyssins á Sæbraut
Fréttir
Í gær

Ragnar Þór sakar Seðlabankann um hræsni og gerir sláandi samanburð – „Þetta er auðvitað allt okkur að kenna“

Ragnar Þór sakar Seðlabankann um hræsni og gerir sláandi samanburð – „Þetta er auðvitað allt okkur að kenna“
Fréttir
Í gær

Viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrá afhentar ólöglega

Viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrá afhentar ólöglega