Kristín I. Pálsdóttir, framkvæmdastýra Rótarinnar og félagi í Ferðafélagi Íslands, hefur lagt fram vantrauststillögu á stjórn Ferðafélags Íslands og framkvæmdastjóra.
Mikill styr hefur staðið um málefni Ferðafélagsins undanfarið eftir að forseti félagsins, Anna Dóra Sæþórsdóttir sagði af sér embætti og rakti afsögnina meðal annars til þess hvernig tekið hefur verið á málum innan félagsins er varða kynferðisofbeldi.
Kristín greinir frá vantrauststillögu sinn í grein sem hún birtir hjá Stundinni en þar segir hún að á morgun verði haldinn félagsfundur í Ferðafélagi Íslands þar sem ræða eigi stöðu félagsins. Kristín hafi átt í bréfaskiptum við núverandi forseta, Sigrúnu Valbergsdóttur, undanfarið eftir að Kristín óskaði svara við spurningum varðandi áreitnis– og ofbeldismál og úrvinnslu þeirra.
„Þau kusu að boða mig á fund í stað þess að svara spurningunum skriflega, sem mér hefði þótt eðlilegra, og mætti ég forseta og framkvæmdastjóra á fundi í gær.
Eftir fundinn ákvað ég að leggja fram vantrauststillögu á stjórn félagsins og framkvæmdastjóra.“
Með þessu deilir Kristín því bréfi sem hún hefur sent. Þar óskar hún eftir að vantrauststillagan verði formlega sett á dagskrá fundarins á morgun og að atkvæðagreiðsla verði leynileg. Kristín segir að á fundi hennar með forseta og framkvæmdastjóra hafi hún orðið „þess áskynja að stjórn og framkvæmdastjóri virðist ekki gera sér fyllilega grein fyrir því hversu alvarlegt er að taka kvartanir um áreitni og ofbeldi ekki alvarlega.“
Kristín segir að í yfirlýsingu stjórnar hafi komið fram að á undanförnum fimm árum hafi komið upp sex mál er varði kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi eða einelti. Öllum málum sé lokið nema einu sem sé í skoðun hjá faglegum utanaðkomandi aðila. Málin hafi verið leyst í sátt milli aðila, með afsögn, skriflegri áminningu, tiltali og tilfærslu í starfi eða samstarfi hætt eða það ekki endurnýjað.
Kristín segir að „af þeim fimm málum sem við fórum yfir á fundinum enduðu fjögur með því að þolendur þurftu að axla alla ábyrgð á lausn málsins á meðan að menn sem hafa gerst brotlegir við reglur félagsins og landslög, hafa sumir fengið fleiri en eitt tækifæri til að brjóta aftur af sér. Fimmta málið var leyst snaggaralega, en ekki án mótbyrs innan stjórnar, af Önnu Dóru Sæþórsdóttur sem nú hefur sagt af sér embætti m.a. vegna þess hversu lítinn stuðning hún fékk til faglegra og ábyrgra vinnubragða til að leysa slík mál.“
Kristín segir að af fundi hennar með stjórnendum félagsins hafi orðið ljóst að þau líti til mjög þröngrar skilgreiningar á áreitnis– og ofbeldismálum og það útskýri líklega hversu fá atvik félagið viðurkenni.
„Þá er tilhneiging til að horfa fram hjá atvikum af völdum þeirra sem starfa fyrir félagið ef áreitni/ofbeldið á sér stað utan vinnu eða yfirráðasvæða félagsins.“
Kristín segist undanfarið hafa verið í sambandi við fjölda kvenna sem hafi sögur að segja er tengist Ferðafélaginu og sé auðheyrt að þolendur beri ekkert traust til félagsins til að leysa slík mál á farsælan hátt.
„Mér hafa t.d. borist upplýsingar um að atvik er varðar einn fararstjóra félagsins skipti jafnvel tugum á vettvangi félagsins. Fjöldi erinda hefur borist mér varðandi sama aðila í störfum hans á öðrum vettvangi.“
Því sé það mat Kristínar að stjórn og framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands hafi brugðist þolendum og fært ábyrgðina af áreitnis- og ofbeldismálum yfir á axlir þolenda.
„Í þeim málum sem rakin voru á fundinum er ljóst að það er ekki réttur skilningur sem fram kemur í yfirlýsingu stjórnar að málin hafi verið leyst á farsælan hátt og ekki heldur í samræmi við reglur félagsins né stöðu slíkra mála í landslögum. Þá má ætla að vegna þess hversu illa hefur verið haldið á málum séu þau í raun mun fleiri vegna þess að þolendur tilkynna síður þar sem svo illa er haldið á málum og staðið með fólki í valdastöðum gegn almenningi sem verður fyrir atvikum í þjónustu félagsins.“
Kristín telur að of mikill skaði hafi orðið á orðspori og trúverðugleika félagsins af völdum núverandi stjórnenda og því þurfi nýtt fólk að taka við og endurvinna traustið.
Sjá einnig:
Segja Önnu Dóru hafa verið vandamálið – Formlega sökuð um einelti gegn framkvæmdastjóranum