„Hrekkjavaka er hátíð af írskum uppruna sem Íslendingar hafa undanfarin ár gert að sinni. Í tilefni af því er mikilvægt að minna á að menning annarra er ekki búningur.“
Svona hefst pistill sem Þórarinn Hjartarson, þáttastjórnandi hlaðvarpsins Ein pæling, skrifar en pistillinn birtist á Vísi í dag undir yfirskriftinni Ekki vera rasisti á Hrekkjavökunni.
Í pistlinum ræðir Þórarinn um hugtakið menningarnám. Hugtakið kemur reglulega upp í þjóðfélagsumræðunni, sérstaklega í kringum hátíðir þar sem það tíðkast að fólk klæði sig í búninga, eins og á hrekkjavökunni og öskudeginum.
Menningarnám er íslensk þýðing enska hugtaksins cultural appropriation. Hugtakið er notað um fólk í yfirburðastöðu sem stelur menningu þeirra sem eru í minnihluta sér til hagsbóta. Á undanförnum árum hefur fólk um allan heim orðið mun meðvitaðara um hugtakið og merkingu þess.
Hér á landi hefur aktívistahópurinn Antirasistarnir til að mynda vakið athygli á hugtakinu með færslum á Instagram-síðu sinni:
View this post on Instagram
„Frelsi í búningavali býður þeirri hættu heim að fólk telji sér í trú um að það sé mögulegt að verða hluti af kynþætti sem það hefur hvorki líffræðilega né menningarlega burði til þess að verða. Það heitir að fremja menningarnám,“ segir Þórarinn um hugtakið í pistlinum
Þá segir hann að það sé mikilvægt að fólk sé meðvitað og beri virðingu fyrir menningu annarra en að í því felist að „aðgreina kynþætti á viðeigandi máta“.
„Hvítir klæði sig ekki eins og Pocahontas eða Black Panther, að asískt fólk klæði sig ekki eins og Superman eða Batman og að þeldökkir klæði sig ekki upp sem persónur úr Frozen eða Rick and Morty.“
Þá fullyrðir Þórarinn að fórnarlömb menningarnáms telji þetta ekki vera vandamál. „Það er sökum þess að hvítþvottur nýlenduríkjanna hefur seytlað inn í menningarheim fórnarlambanna og valdið þeirri viðteknu og varhugaverðu hugmynd að það sé í lagi að klæða sig eins og maður vill. Því er sérstaklega mikilvægt að hvítt fólk vekji athygli á þessu vandamáli hvarvetna á samfélagsmiðlum þar sem þau geta,“ segir hann.
„Fólk þarf að gera sér grein fyrir því að manneskjan sem er vanvirt á þennan máta getur aldrei farið úr sínum búning. Það er því mikilvægt að fólk sé með á hreinu hvaða hópi það tilheyrir og hvaða hópi það tilheyrir ekki, og mun aldrei tilheyra. Munum að klæðast á hrekkjavökunni einvörðungu persónum sem tilheyra sama kynþætti og menningarheimi og við sjálf. Ekki klæða þig upp eins og rasisti á Hrekkjarvökunni. Það er árið 2022. Gerum betur.“
Athafnakonan, bæjarfulltrúinn og áhrifavaldurinn Brynja Dan Gunnarsdóttir birti færslu um pistilinn á Instagram-síðu sinni í dag. Í færslunni spyr Brynja hvort Þórarinn sé að vera kaldhæðinn í pistlinum. „Eða hvað er að gerast?“
Blaðamaður sló á þráðinn til Brynju og ræddi við hana um skoðun hennar á pistlinum. „Þetta hlýtur að vera grín, það getur bara ekki annað verið. Þú getur ekki verið að líkja saman Batman við indíánabúning, kynþætti eða menningu. Ég ætla að vona að þetta sé hræðilegur brandari sem bara einhvern veginn hittir ekki í mark.“
Þá segir Brynja að pistillinn sé samt slæmur hvort sem um er að ræða brandara eða raunverulega skoðun Þórarins. „Þetta er hrikalegt því þetta er eitthvað sem við þurfum að passa í dag. Ég vona að hann sé ekki svona illa upplýstur að þetta sé í alvöru það sem honum finnst,“ segir hún.
Til að mynda sé það ekki menningarnám ef svört manneskja klæðist Batman-búning. „Þetta er bara ekki sambærilegt á neinn máta. Batman er ekki kynþáttur, menning eða litarháttur þannig að það er ekki hægt að líkja þessu saman eða setja þetta undir sama hatt,“ segir hún.
„Við getum alveg verið karakterar en við getum bara ekki klætt okkur upp í menningu eða kynþætti annarra.“
Einnig verður það seint sagt að teiknimyndin Frozen sé sérstaklega inngróin menningu hvíts fólks. „Alls ekki og þetta er bara galinn pistill þannig. Eins og ég segi þá vona ég að þetta sé bara grín, eitthvað slæmt grín,“ segir Brynja.
Brynja ítrekar mikilvægi þess að fólk sé meðvitað um þetta þegar það velur sér búninga á dögum eins og hrekkjavöku eða öskudegi. „Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt að við virðum menningu, trúarbrögð og kynþætti annarra, að við séum ekki að klæða okkur upp í þeim á einhverjum sérstökum dögum. Við eigum ekki að vera að klæða okkur í eitthvað sem annað fólk getur ekki klætt sig úr,“ segir hún.
„Við vorum náttúrulega að mála fólk dökkt í framan hérna í den, með afró og hárkollur en núna vitum við betur. Við erum alltaf að fræða okkur og læra að gera betur. Þetta er alveg flókið en við erum bara öll að læra, ég er að læra og það eru allir að læra. En þetta er bara spurning um að bera virðingu fyrir menningu annarra.“