Á morgun verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjaness í máli manns sem hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi gegn eiginkonu annars manns. Þinghald í málinu verður lokað en DV hefur ákæruna undir höndum.
Ákæruliðirnir eru alls fimm. Í fyrsta lagi er maðurinn sakaður um að hafa í a.m.k. þrjú skipti á tímabilinu frá 5. okt. til 1. des. árið 2019 tekið upp og vistað á síma sinn tvö myndskeið og eina ljósmynd af konunni í kynferðismökum. Gerði hann þetta án leyfis og vitneskju konunnar.
Í öðru lagi er maðurinn ákærður fyrir að hafa á tímabilinu frá byrjun nóvember 2019 og fram til 20. febrúar árið 2020 sent eiginmanni konunnar, án hennar samþykkis, myndskeið af henni og sér í samförum, í gegnum WhatsApp samskiptaforritið.
Í þriðja lagi er maðurinn ákærður fyrir að hafa hótað að dreifa 58 kynlífsmyndskeiðum af konunni.
Í fjórða lagi er maðurinn ákærður fyrir líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi gegn konunni á heimili mannsins þann 6. júlí 2020. Er því lýst svo í ákæru: „Með því að hafa mánudaginn 6. júlí 2020, í svefnherbergi ákærða á heimili hans að […], veist að A, klipið hana í kynfærasvæði, tekið um höfuð hennar og í tvígang slegið því í gluggakistu og slegið hana á báðar rasskinnar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut þreifieymsli á kynfærasvæði, aftan á höfði og á báðum rasskinnum.“
Í fimmta lagi er maðurinn ákærður fyrir að hafa sent konunni hljóðskilaboð þar sem hann lýsti henni sem óheiðarlegri, uppnefndi hana, hótaði að eyðileggja líf hennar og hótaði að eyðileggja eigur hennar, meðal annars bíla hennar með því að keyra þá út í sjó.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Konan krefst miskabóta að fjárhæð 750 þúsund krónur.
Sem fyrr segir er fyrirtaka í málinu á morgun en búast má við að aðalmeðferð, þar sem réttað verður yfir manninum, fari fram eftir áramót.