Karlmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 31. mars á næsta ári. Landsréttur féllst á að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli D-liðar 95. gr. laga um meðferð sakamála – en mikið þarf til að heimild samkvæmt þeim lið sé beitt og er það aðeins gert í tilvikum þar sem árás sé mjög líklega eða yfirvofandi.
Lögreglu barst tilkynning í apríl um líkamsárás í Reykjavík. Hinn kærði maður hafði þá veist að móður sinni með ofbeldi, tekið hana ítrekað hálstaki svo hún missti andann, sparkað í bringu hennar og veitt henni högg víðs vegar um líkamann og höfuðið og hótað henni lífláti. Stóð atlagan yfir í um klukkustund og taldi móðirin að þetta væri hennar síðasti dagur.
Maðurinn mun hafa sagt við móður sína. „Ég fylgist með þér. Ef þú hreyfir þig þá drep ég þig. Ég skal drepa þig. Ég hika ekki við að drepa þig“
Hafi móðirin skilið sem svo að hún mætti ekki hringja eftir hjálp. Maðurinn hafi svo hringt í prest sem hafi grunað að ekki væri allt með felldu og tilkynnt málið til lögreglu Móðirin sagði við lögreglu að hún væri viss um að sonur hennar hefði drepið hana ef presturinn hefði ekki gripið inn í aðstæður.
Réttarmeinafræðingur sagði í matsgerð að kyrkingartakið hafi sett móðurina í lífshættulegt ástand.
Maðurinn hefur ítrekað sætt nálgunarbanni gagnvart foreldrum sínum og hefur verið ákærður og sakfelldur vegna ofbeldis, hótana og brots gegn nálgunarbanni gegn þeim.
Hefur maðurinn meðal annars verið sakfelldur fyrir manndrápstilraun fyrir að veitast að föður sínum með hníf. Héraðssaksóknari telur að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja móður mannsins fyrir frekari árásum.
„Brotaþoli er móðir kærða og í sérstaklega viðkvæmri stöðu gagnvart honum vegna þess. Þá verður ekki litið framhjá því að árásin var bæði alvarleg og ofsafengin. Þá á kærði sögu um ítrekað líkamlegt ofbeldi í garð brotaþola í kerfum lögreglu. Fyrir liggur að nálgunarbann dugar ekki sem skyldi til að verja brotaþola fyrir kærða enda hefur hann ítrekað gerst sekur um brot gegn nálgunarbanni. Þá liggur fyrir að framkvæmt hefur verið áhættumat á kærða og benda niðurstöður matsins til þess að mjög mikil hætta sé á almennri ofbeldishegðun af hálfu varnaraðila og að líklegt sé að hann muni sýna af sér sams konar ofbeldishegðun og hann hafi þegar gert, með töluverðum líkum á stigmögnum í lífshættulegt ofbeldi, eru foreldrar kærða taldir meðal þeirra sem líklegir eru til þess að vera brotaþolar hans.“
Samkvæmt geðrannsókn er maðurinn sakhæfur.
Í málinu lá fyrir að maðurinn hafi hlotið tveggja ára óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir brot gegn valdstjórninni, kynferðislega áreitni, barnaverndarbrot og meiriháttar líkamsárás, en maðurinn hefur áfrýjað þeim dóm til Landsréttar.
Ákæra var einnig gefin út á hendur manninum í júní fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi eftir að hann veittist eð ofbeldi að móður sinni. Eins hafi honum verið gefin að sök önnur brot. Taldi héraðsdómari sem og Landsréttur að foreldrum mannsins, lögreglu og almennum borgurum stafi mikil hætta á manninu og sé töluverð hætta á að árásir hans muni stigmagnast, en hann hefur verið í gæsluvarhaldi frá því að áðurnefnd árás gegn móður hans átti sér stað í apríl.
Úrskurður Landsréttar í heild sinni