Í gær skýrði rússneska varnarmálaráðuneytið frá því að það hafi undirbúið rússneskar hersveitir undir að berjast í geislavirku umhverfi. Úkraína, Bandaríkin og NATO hafa vísað ásökunum Rússa á bug og segja að Úkraínumenn séu ekki að undirbúa sig undir að beita „skítugum sprengjum“.
Ásakanir Rússar um þetta fóru á flug eftir að Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, ræddi símleiðis við starfsbróðir sinn, Ben Wallace, í Bretlandi á sunnudaginn. Þá sagði Shoigu að Úkraínumenn væru að ögra Rússum með því að hóta að nota „skítuga sprengju“ en hann lagði ekki fram neinar sannanir fyrir þessu.
Í kjölfarið byrjuðu Vesturlönd, með NATO í fararbroddi, að vara við þessu og sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, meðal annars að Rússar geti notað þessar ásakanir sínar til að réttlæta enn frekari stigmögnum stríðsins fyrir rússnesku þjóðinni. Auk þess eru þessar ásakanir „fáránlegar“ sagði hann í samtali við Politico.
„Það sem veldur okkur áhyggjum er að þetta er hluti af mynstri sem við höfum áður séð hjá Rússum, í Sýrlandi, en einnig í byrjun stríðsins eða rétt áður en það hófst í febrúar. Þetta er að Rússar saka aðra um að gera það sem þeir hafa sjálfir í hyggju að gera,“ sagði Stoltenberg.
Bandaríkjamenn segja þessar ásakanir ekki á rökum reistar og séu hugsanlegt merki um stigmögnun átakanna í Úkraínu.