Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 19. október síðastliðinn yfir pólsku pari. Fólkið var ákært fyrir að hafa reynt að smygla tæplega 500 töflum af ávana- og fíknilyfinu OxyContin en konan flutti efnin til landsins með flugi frá Varsjá í Póllandi, innvortis í tveimur pakkningum í leggöngum sínum. Atvikið átti sér stað þann 14. apríl síðastliðinn.
Maðurinn var síðan auk þess ákærður fyrir að hafa ekið bíl undir áhrifum fíkniefna. Var hann stöðvaður á Reykjanesbraut við Innri-Njarðvík. Það atvik átti sér stað þremur dögum eftir að fólkið var stöðvað á Keflavíkurflugvelli og OxyContin töflurnar fundust í konunni.
Hvorki konan né maðurinn létu sjá sig undir meðferð málsins fyrir dómi og var því réttað yfir þeim að þeim fjarstöddum.
Maðurinn var dæmdur í fimm mánaða fangelsi og til greiðslu 200 þúsund króna sektar.
Konan var dæmd í fjögurra mánaða fangelsi.
OxyContin töflurnar voru gerðar upptækar.