Elfar Árni Aðalsteinsson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2024.
„Þetta eru frábærar fréttir enda er Elfar Árni algjör lykilmaður í liði KA og verið það síðan hann gekk í raðir okkar fyrir sumarið 2015,“ segir á vef KA
Elfar Árni sem er 32 ára gamall hefur nú leikið 163 leiki í deild og bikar fyrir KA og gert í þeim 66 mörk en hann skoraði sitt 50 mark í efstu deild í 0-3 útisigri KA á Stjörnunni í gær en 38 af þeim hefur hann gert fyrir KA. Áður en hann gekk í raðir KA lék hann með Breiðablik og uppeldisfélagi sínu Völsung á Húsavík.
Sumarið 2019 hlaut Elfar Árni bronsskóinn í efstu deild þegar hann gerði 13 mörk í 20 leikjum og var hann valinn besti leikmaður KA það tímabilið af leikmönnum og stjórn KA sem og hjá Vinum Móða og Schiöthurum.