Auðunn Blöndal fékk þá Þorkel Mána Pétursson og Berg Ebba Benediktsson með sér til að framkvæma svakalegan hrekk á Ríharði Óskari Guðnasyni, Rikka G, á dögunum.
Hrekkurinn var sýndur í þættinum Stóra sviðið á Stöð 2 fyrir helgi.
Auðunn fékk útsendingastjóra Bestu deildarinnar með sér í lið og fengu þeir Rikka til að halda að hann væri í beinni útsendingu ásamt Mána fyrir leik Stjörnunnar og Keflavíkur í Bestu deild karla.
Máni lét svo afar furðulega í útsendingunni og leið Rikka greinilega mjög óþægilega með þetta allt saman.
Ofan á allt saman var ungur drengur á snærum Audda og félaga á vellinum að trufla samræður Rikka og Mána.
Hrekkinn í heild má sjá hér að neðan og er óhætt að mæla með áhorfi á hann.