Bruno Guimaraes, leikmaður Newcastle, sagði í gærkvöldi að hann hafi ekki sofið í tvo daga fyrir leik liðsins gegn Tottenham í gær.
Newcastle vann frábæran 1-2 útisigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær. Liðið lyfti sér með honum upp í fjórða sæti deildarinnar.
Hinn 24 ára gamli Guimaraes og unnusta hans, Ada Lidia Martins, eignuðust sitt fyrsta barn á föstudagskvöld, minna en tveimur sólarhringum fyrir leik Newcastle gegn Tottenham.
„Þetta hafa verið ótrúlegir dagar fyrir mig. Að verða faðir í fyrsta sinn er ótrúlegt. Ég hef ekki sofið í tvo daga. Þetta var einn besti dagur lífs míns,“ sagði Guimaraes eftir leik.
„Ég hefði verið heima en ég elska að vera með strákunum. Þeir gera mig ánægðan og stoltan og við áttum sigurinn skilinn í dag.“
Guimaraes hefur átt gott tímabil með Newcastle og komið að fjórum mörkum í átta leikjum það sem af er í ensku úrvalsdeildinni.