Árið 2020 var Pólverjinn Artur Pawel Wisocki dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir mjög grófa líkamsárás á dyravörð sem starfaði á skemmtistaðnum Shooters í Austurstræti. Dómurinn var kveðinn upp þann 20. febrúar árið 2019 en árásin átti sér stað í ágústmánuði árið 2018. Annar Pólverji, Dawid Kornacki, var dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir hlutdeild í árásinni sem þótti einstaklega hrottaleg. Þorandi árásarinnar lamaðist fyrir neðan háls.
Málið vakti mikla athygli og mikinn óhug á sínum tíma og væntanlega hafa flestir gert ráð fyrir því að Artur sæti í fangelsi í dag. En svo er ekki. Hann virðist aldrei hafa setið af sér þennan dóm. Dómurinn var birtur í Lögbirtingablaðinu í morgun þar sem ekki hefur tekist að birta Artur hann. Virðist hann því hafa flúið land eftir dómsuppkvaðningu.
Auk fangelsisdóms var Artur dæmdur til að greiða þolanda sínum sex milljónir í skaðabætur. Annar dyraverður á Shooters slapp með minni meiðsl eftir árás Pólverjanna og voru þeir dæmdir til að greiða honum 600 þúsund krónur í skaðabætur.
Vísir greindi frá málinu eftir aðalmeðferð fyrir héraðsdómi í janúar árið 2019. Þar sagðist Artur iðrast gjörða sinna og lögmaður hans sagði að hann ætti erfitt með svefn. „Artur sagði að honum liði mjög illa vegna þess sem gerðist. Honum hefði aldrei liðið svo illa. Hann hugsaði stanslaust um þetta. Hann gæti ekki sofið og iðraðist þess mjög,“ sagði í frétt Vísis og Artur sagði: „Ég biðst afsökunar“.
Ljóst er að þrátt fyrir meinta iðrun hefur Artur komið sér hjá því að sitja af sér dóminn hingað til.
Artur og Dawid voru báðir ákærðir fyrir endurtekin hnefahögg í andlit, höfuð og líkama, auk þess að hafa sparkað í manninn, þar á meðal var Artur sakaður um að hafa spakað þrjú hnéspörk í andlit mannsins. Héldu þeir manninum svo hann kæmist ekki undan.
„Þetta er það heimskulegasta sem ég hef gert á ævinni. Ég get ekki bætt fyrir það,“ sagði Artur ennfremur um árásina.
DV greindi meðal annars frá málinu í júní árið 2020 eftir að Landsréttur hafði staðfest fimm ára fangelsisdóm yfir Artur. Þar kom fram að árás Pólverjanna á dyraverði hefði verið framin í hefndarhug en Pólverjarnir sökuðu dyraverðina um fordóma gegn sér. Þar kemur fram að dómskvaddur matsmaður taldi að dyravörðurinn sem lamaðist í árásinni myndi ekki ná sér. Í dómnum sagði ennfremur að Artur hefði haft einbeittan vilja til árásarinnar og myndbandsupptaka sannaði það. Í dómnum sagði meðal annars:
„Ákærði hafi með félögum sínum lagt á ráðin um líkamsárás á dyraverðina tvo, í hefndarhug eftir að hafa verið vísað út af skemmtistaðnum fyrr um kvöldið. Sést glögglega af upptökum eftirlitsmyndavéla þar sem ákærði og félagar hans ganga hröðum skrefum til baka að skemmtistaðnum og ráðast ákveðið og án nokkurra málalenginga á dyraverðina tvo í anddyrinu.“
Um örkumlun dyravarðarins eftir árásina sagði ennfremur í dómi:
„Með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgu og mar á hægri augabrún, skrámu á hvirfli, margþætt brot í fimmta hálshryggjarlið, mænuáverka og meðfylgjandi lömun fyrir neðan háls.“
„Eftir tvo til þrjá mánuði hefði hins vegar verið ljóst að áverkinn var varanlegur og lömunin myndi ekki ganga til baka. Yfirlæknirinn kvað áverkann á mænunni hafa orðið við áverkann. Hrygginn sé hægt að laga og vonast til að mænan lagist við það. Það sé hins vegar sjaldnast raunin og hafi svo orðið hjá brotaþola. Mænan hafi skemmst og „leiðsla yfir þetta skemmda svæði verður aldrei fyrir hendi“, eins og hann orðaði það.“