Kevin de Bruyne, leikmaður Manchester City, skilur ekki af hverju fólk efaðist um Norðmanninn Erling Haaland í sumar.
Haaland kom til Man City frá Dortmund og var fljótlega talað um að hann myndi ekki skora eins mörg mörk á Englandi og í Þýskalandi.
Það hefur hingað til alls ekki verið raunin en Haaland hefur skorað 20 mörk á tímabilinu í aðeins 14 leikjum.
De Bruyne skilur ekki þessar gagnrýnisraddir en Haaland hefur í dágóðan tíma verið einn öflugasti framherji Evrópu.
,,Ég skil ekki af hverju einhver myndi segja að það væri erfitt fyrir hann að skora mörk hérna,“ sagði De Bruyne.
,,Við erum með stórkostlegt lið, við sköpum mörg færi fyrir framherjana okkar svo ef hann er hérna, þá skorar hann mörk. Hann tók mjög góða ákvörðun að koma hingað.“