Wolves í ensku úrvalsdeildinni hefur staðfest það að Steve Davis muni þjálfa liðið út árið.
Davis tók við af Bruno Lage fyrr á tímabilinu en Portúgalinn var rekinn eftir erfiða byrjun í deildinni.
Wolves hefur reynt að ræða við nokkra stjóra hingað til en enginn virðist hafa áhuga á að taka við liðinu.
Michael Beale hjá QPR var efstur á óskalista Wolves en hann hafnaði félaginu líkt og Julen Lopetegui, fyrrum stjóri Sevilla.
Einnig er talað um að Rob Edwards, fyrrum stjóri Watford, og Peter Bosz, fyrrum stjóri Lyon, hafi rætt við félagið.
Wolves hefur ekki náð samkomulagi við neinn stjóra og fær Davis því tækifæri á að sanna sig á næstu vikum áður en HM í Katar hefst.