Magdalena Valdemarsdóttir opnar sig um ofbeldissamband sem hún var í en hún er nýjasti gestur í hlaðvarpi Eddu Falak, Eigin konum. Þar greinir hún frá því hvernig barnsfaðir hennar hafi haldið áfram að beita hana ofbeldi þrátt fyrir sambandsslitin og hvernig hvorki ákæra frá lögreglu né nálgunarbann gátu stöðvað hann.
Barnsfaðir hennar var í júlí árið 2017 dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir húsbrot, eignaspjöll og líkamsárás í Héraðsdómi Reykjaness, fyrir að hrinda Magdalenu þungaðri utan í vegg, slá hana tvívegis með flötum lófa í andlit og taka hana tvisvar kverkataki með báðum höndum þannig hún átti erfitt með að anda. Hún var þá gengin 17 vikur á leið með tvíbura þeirra. Einnig var hann dæmdur fyrir að setja sig ítrekað í samband við hana þrátt fyrir nálgunarbann.
Magdalena segir að hún hafi kynnst barnsföður sínum í gegnum Facebook og til að byrja með hafi sambandið verið dásamlegt.
„Þetta var rosalega, mjög, gott. Ég man eftir því að ég stóð einhvern tímann inni í eldhúsi og hugsaði – Vá er hægt að vera svona hamingjusöm, þetta er eins og í bíómyndunum.“
Svo eftir nokkra mánaða samband fór að síga á ógæfuhliðina. Barnsfaðir hennar virtist haldinn ofsóknarbrjálæði og ásakaði hana ítrekað um að vera honum ótrú og virtist vera að leita að ástæðum til að verða reiður.
Eftir að hún varð ólétt fékk hann það á heilann að stunda með henni kynlíf og brást ókvæða við þegar hún var ekki tilbúinn að láta undan honum. Fór svo að Magdalena ákvað að slíta sambandinu en þá upphófst mikið áreiti sem seint virtist ætla að taka enda.
Hann sendi henni stöðugt skilaboð og ef hún lokaði á hann fékk hann aðra aðila til að setja sig í samband í staðinn eða sendi skilaboð á vini og vandamenn Magdalenu. Hann virtist haldinn mikilli þráhyggju.
Stöðugt var hann að spyrja sjálfur, eða láta aðra spyrja fyrir sig, hvort Magdalena væri farinn að hitta einhvern annan mann. Ákvað Magdalena að lokum að ljúga og segja að svo væri í von um að þá myndi áreitið hætta.
Varla hafði hún sent skilaboðin þegar hann var mættur heim til móður hennar þar sem hún dvaldist og framdi það ofbeldisbrot sem áður hefur verið lýst.
Magdalena lýsir því að á meðan hann beitti hana ofbeldinu hafi hún fyrst og fremst verið að hugsa um það líf sem hún gekk með undir belti og hvernig hún gæti verndað ófædda tvíburadrengi sína.
„Hann gat drepið mig – en börnin – bjargaðu börnunum.“
Hún lýsir því að augu barnsföður hennar hafi verið svört á meðan hann beitti hana ofbeldinu. Nágranni hringdi á lögregluna vegna hávaða frá átökunum og var barnsfaðir hennar fjarlægður af staðnum og í framhaldinu ákærður.
Hún fékk nálgunarbann og vonaðist þá til að þess að áreitið væri búið. En svo reyndist ekki vera. Hún segir að hún hafi reynt að fá nálgunarbann áður en hann réðst á hana en fengið þær upplýsingar frá lögreglu að áreitið hefði ekki náð nægilegu alvarleikastigi.
„Lögreglukonan sagði við mig áður en hann réðist á mig – þú verður að fá hann til að ráðast á þig eða gera þér eitthvað meira en bara þetta – hóta þér eða eitthvað. […] Þú þarft að fá annað hvort líflátshótun eða áverka. Það er ekki hægt að fá nálgunarbann öðruvísi.“
Eftir árásina var alvarleikinn orðinn nægur og fékk hún nálgunarbann sem hann virti í smá tíma. En fór svo að fá þriðju aðila til að setja sig í samband við hana og viðhalda áreitinu. Svo fór hann sjálfur að senda skilaboð og gætti þess að gera það um helgar, meðvitaður um að þá þyrfti Magdalena að bíða fram á næsta virka dag til að geta kært brotið gegn nálgunarbanninu til lögreglu.
Eftir þetta glímir Magdalena við alvarlega áfallastreitu, kvíða og þunglyndi. Eftir að tvíburarnir komu í heiminn bættist svo fæðingarþunglyndi við og fór svo að Magdalena ákvað að börnum hennar væri það fyrir bestu að fara í fóstur. Fyrst tímabundið og síðar var það gert varanlegt. Hittir hún drengina reglulega og er sannfærð um að þetta hafi verið það rétta í stöðunni. Hún þurfi að vinna í sjálfri sér áður en hún geti verið góður uppalandi.
Sjá einnig: Magdalena ákvað að láta börnin sín frá sér – „Nú er ég ekki mamma lengur!“
Hún hikaði einnig lengi við að hefja nýtt ástarsamband en barnsfaðir hennar hafi tekið því illa þegar hún fór að hitta aðra menn og jafnvel sett sig í samband við tengdaforeldra hennar svo dæmi séu tekin og sagt hluti á borð við: „Sjáðu hvað tengdadóttir þín er mikil hóra“.
Hún lýsir einnig gaslýsingu sem barnsfaðir hennar beitti hana en hann hafi sagt bæði við hana á samfélagsmiðlum og við hvern sem er að hún væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi og fór Magdalena um tíma sjálf að efast um geðheilsu sína.
Aðspurð um hvort hún hræðist barnsföður sinn í dag svarar hún:
„Ég hræðist hann ekki. Fólk hefur spurt: Ertu ekki hrædd við hann? En nei. Ef hann ætlaði að ráðast á mig aftur væri hann búinn að því […] Ef hann myndi koma aftur. Þá ég veit ekki. Við getum alltaf talað saman rólega en hann myndi aldrei held ég ráðast á mig aftur.“
„