Aston Villa er í stjóraleit eftir að hafa látið Steven Gerrard taka pokann sinn í gær. Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Sporting í Lissabon, er í viðræðum um að taka við stöðunni, ef marka má The Athletic.
Villa hefur átt dapurt tímabil í ensku úrvalsdeildinni og er í sautjánda sæti með níu stig eftir ellefu leiki.
Í gær töldu æðstu menn innan félagsins að nóg væri komið og Gerrard látinn fara.
The Athletic segir að að Mauricio Pochettino, fyrrum stjóri Tottenham og Paris Saint-Germain, og Thomas Tuchel, sem var rekinn frá Chelsea fyrr á tímabilinu, hafi báðir verið á blaði Villa yfir mögulega arftaka Gerrard. Þeir hafa hins vegar ekki áhuga.
Því hefur félagið snúið sér til Amorim. Sá hefur vakið mikla athygli fyrir góð störf hjá Sporting í Portúgal.