Edwin van der Sar framkvæmdarstjóri Ajax hefur á nýjan leik fengið fyrirspurn frá Manchester United.
Hollenskir miðlar fjalla um málið og segja að forráðamenn United hafi sett sig í samband við sinn fyrrum markvörð.
Van der Sar var lengi vel markvörður United en félagið vill ráða hann inn sem yfirmann knattspyrnumála. Félagið hefur reynt það áður en þá vildi Van der Sar halda áfram í Hollandi.
Van der Sar er samningsbundinn Ajax til 2025. United hefur verið að sækja í Ajax starfið en Erik ten Hag stjóri United kom frá Ajax í sumar og þá keypti félagið Lisandro Martinez og Antony frá Ajax í sumar.
Hollenskir miðlar segja Ajax meðvitað um áhuga United og að félagið horfi til Danny Blind ef markvörðurinn fyrrverandi fer aftur til Englands.