Steinar Harðarson, vinnuverndarráðgjafi, skrifar aðsenda grein sem birtist í Fréttablaði dagsins undir nafninu Blóð og leikar, þar sem hann tjáir sig um komandi Heimsmeistaramót í knattspyrnu sem hefst í Katar í næsta mánuði. Hann gagnrýnir RÚV fyrir að sýna frá keppninni.
„RÚV, útvarp allra landsmanna, auglýsir nú grimmt keppni í knattspyrnu sem fram fer í haust. Það er nánar tiltekið heimsmeistarakeppnin í fótbolta sem hefst í nóvember á þessu ári og er nú haldin í Katar. Það er á allra vitorði að spilling og mútur urðu til þess að keppnin 2022 er haldin þar,“ skrifar Steinar.
Hann gagnrýnir meðferð á erlendu vinnuafli, sem byggði glæsilega velli sem notaðir verða á mótinu.
„Í þessu landi, Katar, vinna aðfluttir verkamenn flest störf og þá sérstaklega þau erfiðu og hættulegu. Í landinu eru grundvallarmannréttindi fótum troðin. Erlendir verkamenn eru meðhöndlaðir eins og búfénaður. Ákvörðun um að halda þessa keppni í Katar er svartur blettur á stjórn alþjóðasamtaka þessarar glæsilegu íþróttar, vinsælustu íþróttar í heimi, knattspyrnunnar.“
Margir verkamenn hafa látið lífið við byggingu vallanna sem leikið verður á.
„Talið er að um ein og hálf milljón verkamanna hafi starfað við mannvirkjagerð tengda HM í knattspyrnu. Í samantekt Guardian, sem byggir á upplýsingum frá heimalöndum farandverkamannanna, kemur fram að um 6.500 verkamenn hafi látið lífið við þessar framkvæmdir. Ekki kom fram hve margir hafi slasast alvarlega en gera má ráð fyrir að þeir séu margfalt fleiri.
Flest fórnarlömbin eru frá Bangladesh, Indlandi, Pakistan, Nepal og Sri Lanka. Í keppninni verða leiknir 64 leikir. Það liggur því nærri að fyrir hvern leik hafi 101 farandverkamaður látið lífið og mun fleiri slasast alvarlega. Finnst þjóðum heimsins þetta ásættanlegar fórnir?“
Steinar skorar á RÚV, sem mun sýna frá mótinu, að gera eftirfarandi á meðan HM stendur, hafi stöðin ekki „manndóm og siðferðisþrek til þess að hætta við lýsingu frá þessum ömurlega viðburði“:
Nánar um málið í Fréttablaðinu.