Elma Aveiro, systir Cristiano Ronaldo, hefur baunað harkalega á Erik ten Hag, stjóra Manchester United.
Ronaldo strunsaði af velli og út af Old Trafford áður en lokaflautið gall í góðum 2-0 sigri United gegn Tottenham í vikunni. Hann var ónotaður varamaður í leiknum.
Í gær kom svo fram að Ronaldo hafi neitað að koma inn á fyrr í leiknum.
Nú hefur Portúgalinn, sem sneri aftur til United í fyrra, verið látinn með varaliðinu. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær.
„Ég byrjaði mjög ungur og eldri og reynslumeiri leikmennirnir voru alltaf mjög mikilvægir fyrir mig,“ skrifar hann á meðal annars.
„Seinna meir hef ég þess vegna alltaf reynt að vera fyrirmynd fyrir ungu leikmennina í þeim liðum sem ég spila. Því miður er það ekki alltaf hægt og maður missir sig í hita leiksins.“
„Að gefa sig undir pressu er aldrei möguleiki. Þetta er Manchester United og við þurfum að standa saman. Við verðum saman á ný bráðlega.“
Systir Ronaldo sættir sig engan veginn við framkomuna í garð bróður síns.
„Ekki gera eitthvað sem þú vilt ekki að verði gert við þig,“ segir Alveiro. Þarna á hún klárlega við Ten Hag.
„Guð sefur ekki,“ bætir hún við.