fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Niemann blæs til málsóknar gegn heimsmeistaranum Carlsen – Vill fá 14 milljarða í skaðabætur

Björn Þorfinnsson
Fimmtudaginn 20. október 2022 19:17

Hans Niemann og Magnus Carlsen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríski stórmeistarinn Hans Niemann hefur kært heimsmeistarann Magnus Carlsen til dómstóls í Missouri í Bandaríkjunum. Auk Carlsen er fyrirtæki hans PlayMagnus Group kært, bandaríski stórmeistarinn Hikaru Nakamura, skáksíðan Chess.com sem og stjórnandi hennar Danny Rensch. Fer Niemann, sem er aðeins 19 ára gamall, fram á skaðabætur upp á um 100 milljónir dollara frá hverjum og einum aðila vegna rógburðar og ærumissi sem ásakanir í hans garð hafa valdið og telur hann að þessir öflugu aðilar í skáksamfélaginu hafi farið í ófrægingarherferð gegn sér. Alls er um að ræða tæplega 60 milljarða króna.

Skákhneykslið í kringum Niemann og Carlsen hefur ekki farið framhjá nokkrum manni. Það hófst þegar Niemann pakkaði heimsmeistaranum saman í þriðju umferð Sinquefield-mótsins í St. Louis í Bandaríkjunum í septemberbyrjun en í kjölfarið hætti Carlsen í mótinu og ýjaði að því að Niemann hefði haft rangt við.

Allt varð í kjölfarið vitlaust á samfélagsmiðlum og spilaði bandaríski stórmeistarinn Nakamura þar lykilhlutverk. Auk þess að vera einn sterkasti skákmaður heims nýtur Nakamura gríðarlegra vinsælda sem „streymari“ á Youtube og Twitch. Fór Nakamura mikinn á miðlum sínum í kjölfar uppákomunnar og lét þung orð falla í garð Niemann auk þess sem hann velti sér upp úr skákum hans og ferli hingað til.

Carlsen á svo hlut í norska fyrirtækinu PlayMagnus Group sem að heldur utan um ýmis umsvif hans tengd skáklistinni. Fyrirtækið er orðið afar öflugt en á dögunum var tilkynnt um að Chess.com – stærsta skáksíða heims – hefði keypt fyrirtækið og þar með eru hagsmunir heimsmeistarans og Chess.com orðnir samtvinnaðir. Má lesa það út úr kærunni að Niemann og lögfræðingar hans telji að Chess.com og stjórnandi fyrirtækisins, alþjóðlegi meistarinn Danny Rensch, hafi beitt sér gegn Niemann einnig með því meðal annnars að loka reikningum hans á síðunni auk þess að gefa út ítarlega skýrslu sem varpa átti ljósi á unmfangsmikið svindl Bandaríkjamannsins unga á síðunni.

Sjálfur hefur Niemann viðurkennt að hafa svindlað tvívegis á síðunni þegar hann var 12 og 16 ára gamall en áðurnefnd skýrsla Chess.com benti til þess að svindlið hefði verið mun víðtækara.

Ljóst er að orðspor Niemann er verulega laskað eftir hneykslið en engar beinar sannanir hafa komið fram um að hann hafi haft rangt við í venjulegum skákmótum þar sem keppendur mætast í raunheimum. Ásakanir í hans garð hafa aðeins byggst á líkum en sumar skákir sem Niemann hefur teflt í gegnum tíðina hafa að sögn sérfróðra verið grunsamlega vel tefldar.

Niemann lauk á dögunum keppni í bandaríska meistaramótinu í skák en ungstirnið umdeilda lenti þar í 5-7. sæti. Þrátt fyrir mótlætið tefldi hann á köflum afar vel í mótinu en líkt og aðrir keppendur mátti hann sæta ítarlegri öryggisleit fyrir hverja umferð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu