fbpx
Sunnudagur 09.febrúar 2025
Fréttir

Tapaði 800 þúsund í netsvikum í gegnum Facebook Messenger – „Ég skammast mín niður í tær fyrir að láta plata mig svona rosalega“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 20. október 2022 17:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekkert lát er á svæsnum tilraunin til netsvika í gegnum Facebook Messenger og því miður heppnast sumar tilraunirnar. Ákveðin gerð af svikum hefur verið í gangi hér á landi undanfarna mánuði en hefur færst mjög í aukana síðustu daga og vikur.

Sjá einnig: Sextug kona í Kópavogi varð illa fyrir barðinu á netsvindli – „Skömmin er því miður mikil“

Dæmigerð merki um þennan svikafaraldur eru Facebook-færslur á borð við þessa sem kona ein birti fyrir nokkrum dögum:

„Einhver virðist hafa hakkað sig inn á Facebookið mitt. Komst sjálf ekki inn í allan dag en tókst það að lokum. Bara ekki opna neitt frá mér í einhvern tíma á meðan ég finn út úr þessu. Fengið fréttir að einhverjir urðu fyrir árás og hafa tapað fé og það er ömurlegt.“

Í ummælum undir færslunni skrifar ein kona:

„Varst þetta ekki þú að biðja um símanr. mitt?“

Margir kannast við þetta mynstur. Ókunnir aðilar hakka sig inn á Facebook-reikninga fólks og taka að senda skilaboð á vini viðkomandi í gríð og erg. Í skilaboðunum biður vinurinn um símanúmer eigandans og eru þessar beiðnir settar fram á lýtalausri og eðlilegri íslensku sem hefur mjög blekkjandi áhrif. Viðtakandi skilaboðanna er síðan hvattur til að birta skjáskot af greiðslukortinu sínu og smella á tengil og slá inn kóða sem sendur er í sms. „Augnabliki síðar í samtalinu kom mynd af farsíma, merkt Amazon og þar stóð: Til hamingju Hildur, þú hefur unnið 110.350.- og að peningarnir verði færðir á kortið mitt. Var svo beðin um að senda mynd af kreditkortinu, báðum hliðum og mér sýnd mynd af korti kunningjakonunnar þar sem hún heldur á sínu korti,“ sagði kona í viðtali við DV um síðustu helgi og er þessi lýsing dæmigerð fyrir þetta ferli sem á sér stað.

Ekkert gerist við það eitt að gefa upp símanúmerið sitt

Sá misskilningur er á kreiki í samfélagmiðlaumræðunni um þessi svik að hægt sé að missa glæpahyskið sem þetta stundar inn á bankareikninga sína með því einu að gefa upp símanúmerið sitt. Það er útilokað. Mjög margir blekkjast til þess að verða við þeirri beiðni að gefa upp símanúmerið sitt enda er hún lögð fram á afar eðlilegan og vinsamlegan hátt. En það er ekki fyrr en viðkomandi fer að gefa upp kortaupplýsingar og samþykkja aðgerðir sem fé fer glatast. Viðvörunarbjöllur ættu að hringja þegar lofað er fé án fyrirhafnar en því miður hafa þær ekki hringt nógu hátt hjá öllum undanfarið því ábyrgt og vel gefið fólk hefur látið blekkjast í andvaraleysi . Þetta fólk fyllist undantekningalítið mikilli skömm þegar rennur upp fyrir því hvað það hefur verið illa blekkt.

„Heiðvirðasta kona sem ég þekki“

Maður á miðjum aldri sem DV ræddi við í dag tapaði nýlega 800 þúsund krónum í þessum svikafaraldri. Maðurinn segir mikla skömm fylgja þessu og baðst því undan því að koma fram undir nafni. Hann vildi hins vegar gjarnan segja sína stuttu sögu um þetta, öðrum til viðvörunar:

„Þetta var ótrúleg atburðarás. Það var kona sem er viðskiptafélagi okkar hjónanna, en við rekum saman félag, og þetta er heiðvirðasta kona sem ég þekki, ég fékk frá henni skilaboð snemma morguns þar sem hún bað um símanúmerið mitt. Þar sem við erum með sameiginlegt félag hélt ég að hún væri að reyna að komast inn á þann reikning. Ég var hálfsofandi og sló þetta inn.“

Maðurinn tapaði rétt tæplega 800 þúsund krónum á þessum samskiptum. „Ég skammast mín niður í tær fyrir að láta plata mig svona rosalega,“ segir maðurinn.

Konan, eða réttara sagt ókunnur glæpamaður sem þóttist vera þessi kona, bað fyrst um símanúmer mannsins. Honum þótti dálítið sérkennilegt að hún hefði ekki símanúmerið en þó ekki útilokað þar sem eiginkonan hefur verið meira í samskiptum við þennan viðskiptafélaga hjónanna. Sama atburðarás tók síðan við og kom fram í viðtali DV um helgina. Maðurinn birti mynd af kortinu sínu, sló inn kóða og samþykkti aðgerðir með rafrænum skilríkum. Hann átti að fá 110 þúsund krónur inn á reikninginn sinn, sem var vinningur í einhverjum leik.

„Ég reis upp í rúminu og náði í veskið mitt og kortið, þannig að ég hefði átt að ranka betur við mér,“ segir maðurinn og er fullur af sjálfsásökunum. „Í þessar tvær eða þrjár mínútur sem þetta tók þá datt mér ekki í hug að það væri eitthvað gruggugt á ferðinni. En svo átta ég mig á því að það er búið að taka út af kortinu mínu í stað þess að leggja in á það og þá áttaði ég mig á því hvað var í gangi.“

Maðurinn lokaði kortunum hið snarasta og fyrirbyggði þar með frekari þjófnað. En hátt í milljón er glötuð.  Maðurinn hefur ekki fengið svör frá viðskiptabanka sínum um möguleikann á því að ógilda færslurnar. Honum skilst að það sé ekki hægt vegna þess að hann hafi samþykkt þær með rafrænum skilríkjum. Hins vegar þykir honum skrýtið að ekki var farið fram á tveggja þátta auðkenningu til að framkvæma aðgerðirnar heldur bara einfalda auðkenningu. Auk þess eru færslurnar skráðar á nafn íslenskrar konu og því augljóst að starfsmenn bankans geta séð færslurnar.

Maðurinn ætlar að kanna stöðu sína betur á næstu dögum, meðal annars hjá Neytendasamtökunum. En fyrst og fremst er hann reynslunni ríkari og mun varast slíka pretti í framtíðinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda