Loftslagsvandinn, sem við glímum við, gerði að verkum að líkurnar á þurrkum sumarsins voru tuttugu sinnum meiri en ella. Þetta hafa vísindamenn reiknað út að sögn The Guardian. Niðurstaða þeirra er að ef hnattræn hlýnun af mannavöldum væri ekki til staðar þá myndu þurrkar af þessu tagi eiga sér stað einu sinni á hverjum fjögur hundruð árum að meðaltali.
Þurrkarnir höfðu áhrif á uppskeru og orkuframleiðslu og juku á vandann við matvælaframleiðslu og rafmagnsframleiðslu sem var þegar til staðar vegna stríðsins í Úkraínu.
Vísindamennirnir vara við því að þurrkar verði enn verri og algengari ef ekki verði hætt að nota jarðefnaeldsneyti.
Þurrkarnir í sumar voru aðallega afleiðing hitabylgna sem herjuðu á Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu. Minni úrkoma skipti ekki eins miklu máli.
Vísindamennirnir segja að sumar, eins heitt og 2022, hefði verið „svo að segja útilokað“ ef hnattræn hlýnun hefði ekki komið til. Þeir segja einnig að í Evrópu hafi 24.000 dauðsföll verið afleiðing hitanna.