fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Sindri ræðir eineltismálið í Hafnarfirði – Segir „puttabendingar og ábyrgðareltingaleik“ tefja lagfæringuna

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 19. október 2022 18:32

Sindri Viborg. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sindri Viborg, formaður Tourette-samtakanna á Íslandi og kennaranemi, segir að breyta þurfi því hvernig tekið er á eineltismálum hér á landi. Hann segir að illa gangi að leysa einelti innan skóla þar sem óljóst er hver ber ábyrgð á því að taka á málunum.

Þetta kom fram í máli Sindra en hann var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Rætt var við Sindra í samhengi við fréttir um hrottalegt einelti sem 12 ára stúlka í Hafnarfirði hefur verið beitt að undanförnu. Móðir stúlkunnar steig fram í dag og ræddi um eineltið sem dóttir hennar hefur orðið fyrir.

Sjá einnig: Tólf ára stúlka á spítala eftir sjálfsvígstilraun í kjölfar hrottalegs eineltis og ofbeldis – „Þetta er bara nánast eins og morðtilraun“

Í upphafi þáttarins ræddi Sindri um eineltið sem hann varð sjálfur fyrir sem barn en í dag er hann að mennta sig sem kennari með séráherslu á eineltisforvarnir.

„Ég verð fyrir margra ára andlegu og líkamlegu einelti, ég er með fjöldan allan af beinbrotum eftir grófustu árásirnar, ég var stunginn með hníf,“ segir Sindri í þættinum. „Þetta er svona líkamlega dótið fyrir utan minni mál eins og að sauma saman göt á höfði eða einhvers staðar í andliti, gera að brákuðum útlimum eða hvernig sem því er. Það er svo fyrir utan andlegt einelti og annan níðingsskap.“

Sindri segir að skólafélagar hans hafi lagt hann í einelti og að tourette sjúkdómurinn hafi hiklaust verið afdrifaríkur partur af því. Þá lýsir hann því hvernig andlega hliðin á eineltinu var en hann segir að útskúfun hafi þar spilað stórt hlutverk.

„Það kemur enginn í afmælið þitt er gott dæmi, þú býður tvöföldum bekk með 60 nemendum en það mætir enginn. Þér er ekki boðið í afmæli eða færð vitlausar dagsetningar eða tímasetningar. Þú færð ekki að taka þátt í skólalífinu almennilega, það er endalaust regn af niðrandi ummælum og öðru í frímínútum og þess háttar. Maður er útskúfaður í rauninni alls staðar,“ segir hann.

Þá segir Sindri að með tilkomu internetsins hafi gerendum verið veittur ennþá frekari aðgangur að þolendum, efnislega sé þetta þó af sama meiði.

Sindri segir að ekki hafi verið gripið inn í þegar hann var lagður í einelti þrátt fyrir að það hafi verið reynt að leitast eftir því. „Það bara skilaði ekki neinum árangri, eftir nokkur ár var ég sjálfur kominn í sjálfsvígsaðgerðir og tilraunir. Þannig að þetta sligar mann, það er staðreynd.“

Fyrir tveimur árum síðan opnaði Sindri sig í viðtali hjá DV um eineltið sem hann varð fyrir í æsku. „Það tók mig mörg ár að læra að líta í spegil og ekki hata það sem ég sá. Jafnvel eftir það þurftu að líða mörg ár í viðbót áður en ég var andlega fær um að vinna í gegnum þetta æviskeið mitt,“ sagði hann meðal annars í viðtalinu sem má lesa í heild sinni hér.

„Puttabendingar og ábyrgðareltingaleikur“ tefja lagfæringuna

Aðspurður um það hvernig hægt sé að laga þetta segir Sindri að það fari eftir því hvernig á málið sé litið. „Mér finnst eiginlega rangt að byrja í skólunum. Mér finnst eiginlega best að skilja þetta mál heilt yfir, í stóra samhenginu. Þar langar mig eiginlega að byrja á pínulitlu hrósi – Ísland er með rosalega flottar löggjafir varðandi eineltisforvarnir og þær eru mjög ítarlegar. Þær teygja anga sína langt aftur á bak og þær eru meira að segja stjórnarskrárvarðar,“ segir hann.

„Vandinn aftur á móti fyrir mér er hvernig goggunarröð ábyrgðar tengt þessum stjórnarskrárvörðu atriðum er í rauninni fylgt eftir, eða hvernig það er framkvæmt. Fyrir mér er þessi keðja orðin of löng, þegar komið er niður að skólunum þá er þetta orðið svo útþynnt. Þannig ég eiginlega veit ekki hvar er hægt að segja: „Hey, þið eruð ekki að standa ykkur nógu vel“ eða „Þið eruð standa ykkur nógu vel“.“

Sindri útskýrir þá hvernig þessi keðja virkar. „Keðjan byrjar tæknilega séð hjá Alþingi, stjórnsýslunni. Þar erum við með menntamálaráðuneytið sem ber yfirábyrgð á öllum málum skóla á Íslandi. Menntamálaráðuneytið, vegna þess að skólar eru á ábyrgð sveitarfélaga, er búið að áframselja ábyrgðina að mestu leyti yfir til sveitarfélaga,“ segir hann.

„Sveitarfélögin horfa svo á aragrúa af skólum á mismunandi stigum, frá leikskóla og upp, og þau áframselja ábyrgðina yfir á skólastjórnina. Skólastjórnin áframselur svo ábyrgðina að ákveðnu leyti yfir á eineltisforvarnarteymin hjá sér en þá erum við komin með svo langan hala af því hvar ábyrgðin liggur þannig að um leið og eineltið kemur upp og það gengur illa að leysa það innan skólans þá geturðu í rauninni bent hvert sem er. Sá sem þú bendir á bendir svo aftur hvert sem er.“

Sindri er þá spurður hvernig sé hægt að leysa vandamálin sem þessi keðja skapar. „Mér þætti ofsalega gaman að sjá það að menntamálaráðuneytið væri með einstaklinga sem eru til staðar um leið og eineltismál koma upp í skólum, að skólar geti strax fengið hlutlausa einstaklinga til þess að koma til þeirra. Þessir sömu einstaklingar á, ég veit ekki hvað á að kalla það, friðartímum, þegar engin eineltismál eru uppi, sinna þá líka eftirliti, fræðslu og uppbyggingu á eineltisforvörnum í skólunum,“ segir hann.

„Núna virðist vera sem þessar puttabendingar og ábyrgðareltingaleikur tefji í rauninni lagfæringuna á þessari eitruðu menningu sem fær þá að grassera á meðan.“

Ef þú eða ein­hver sem þú þekkir ert að glíma við sjálfs­vígs­hugsanir að þá er hægt að hafa sam­band við Hjálpar­­síma Rauða krossins, 1717 og í gegnum net­­spjall þeirra. Þar eru þjálfaðir og reynslu­­miklir sjálf­­boða­liðar á öllum aldri sem svara þeim sím­­tölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Eins er hægt að leita til Píeta samtakanna í síma 552 2218 eða á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Innflytjandinn sem lét íslenskar konur heyra það: „Væri reiðin ykkar önnur ef Íslendingur hefði skrifað þetta?“

Innflytjandinn sem lét íslenskar konur heyra það: „Væri reiðin ykkar önnur ef Íslendingur hefði skrifað þetta?“
Fréttir
Í gær

Sigurður G. segir að eins og fyrr sé hnefinn á lofti hjá Eflingu

Sigurður G. segir að eins og fyrr sé hnefinn á lofti hjá Eflingu
Fréttir
Í gær

Strætósvindlarar verða krafðir um fargjaldaálag

Strætósvindlarar verða krafðir um fargjaldaálag
Fréttir
Í gær

Nikótínvörusali bregst við auglýsingabanni – Túnfiskdósir og „ape shop“

Nikótínvörusali bregst við auglýsingabanni – Túnfiskdósir og „ape shop“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðir sló og sparkaði í dóttur sína – Hótaði að berja hana svo illa að hún gæti ekki andað fyrir blóði

Faðir sló og sparkaði í dóttur sína – Hótaði að berja hana svo illa að hún gæti ekki andað fyrir blóði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sex ára drengur setti fingur í hurðarfals myndmenntastofu og unglingur sparkaði í hurðina

Sex ára drengur setti fingur í hurðarfals myndmenntastofu og unglingur sparkaði í hurðina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brotist inn í bíl Páls Steingrímssonar en lögregla og tryggingafélag draga lappirnar – „Ég vil bara vara fólk við þessu“

Brotist inn í bíl Páls Steingrímssonar en lögregla og tryggingafélag draga lappirnar – „Ég vil bara vara fólk við þessu“