Það gengur erfiðlega fyrir Chelsea að fá miðjumanninn Jorginho til að skrifa undir nýjan samning við félagið. Þetta segir Evening Standard.
Samningur hins þrítuga Jorginho við Chelsea rennur út næsta sumar. Skrifi hann ekki undir nýjan getur hann farið frítt frá Lundúnafélaginu þá. Ítalinn hefur verið orðaður við lið í heimalandinu.
Chelsea er til í að bjóða honum samning upp á 120 þúsund pund á viku. Leikmaðurinn vill þó fá nær 150 þúsundum, líkt og Cesar Azpilicueta, varnarmaður félagsins, samdi um nýlega.
Jorginho er ekki sá eini sem Chelsea er að reyna að fá til að skrifa undir nýjan samning. Það sama á við um N’Golo Kante.
Samningur Kante rennur einnig út næsta sumar.
Báðir vilja miðjumennirnir helst vera áfram hjá Chelsea á næstu leiktíð. Til þess þurfa þeir hins vegar að fá laun sem þeir telja sanngjörn.