Arsenal er vongott um að ná samkomulagi við þrjá unga lykilmenn um nýja samninga þeirra. The Athletic fjallar um stöðu mála.
Bukayo Saka, Gabriel Martinelli og William Saliba eru leikmennirnir sem um ræðir. Allir hafa þeir verið lykilmenn og átt frábært tímabil með toppliði Arsenal það sem af er leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.
Samningar allra leikmanna renna út eftir næstu leiktíð, sumarið 2024. Staða Arsenal er hins vegar sterkust er kemur að Martinelli, en klásúla er í samningi hans um að framlengja hann um tvö ár til viðbótar.
Það er í forgangi hjá Arsenal að semja við Saka. Viðræður við hann eru jafnframt lengst komnar af viðræðum Skyttanna við þremenningana. Þá má færa rök fyrir því að enski landsliðsmaðurinn sé stærsta stjarna Arsenal um þessar mundir.
Þó er bjartsýni á Emirates um að semja við alla þrjá leikmennina sem um ræðir, áður en það verður um seinan.