Michael Carrick fyrrum miðjumaður Manchester United er að ganga frá samningi við Middlesbrough um að taka við sem stjóri liðsins.
Carrick hafði verið í þjálfarateymi Manchester United en lét af störfum þegar Ole Gunnar Solskjær var rekinn á síðustu leiktíð.
Carrick hafði í síðustu viku verið í viðræðum við Middlesbrough sem leikur í næst efstu deild.
Viðræðurnar virtust á leið í strand þar sem Carrick og Boro náðu ekki saman um starfslið hans og hvaða völd hann hefði í leikmannamálum.
Nú hefur það vandamál verið leyst og er búist við að Carrick taki þetta stóra starf að sér. Hann stýrði United tímabundið í nokkra leiki eftir að Solskjær var rekinn en fær nú stóra tækifærið til að sanna ágæti sitt.
Boro rak Chris Wilder úr starfi á dögunum og hefur síðan leitað að eftirmanni hans.