,,Mér leiðast mánudagar,” sagði Brenda Ann Spencer, þá 16 ára, spurð að því af hverju hún hefði skotið 30 skotum að börnum á leið inn í Grover Cleveland barnaskólann.
Brenda Ann var með þeim fyrstu að fremja handahófskennd morð í eða við skóla með skotvopni, sem í dag er orðið það algengt í Bandaríkjunum að aðeins mannskæðustu árásir rata í fjölmiðla.
Hún var einnig fyrsta kvenkyns ungmennið til að fremja slíkan verknað. Skotárárásir í skólum af völdum kvenfólks eru afar sjaldgæfar og oftar en en ekki er þá gerandinn fullorðinn einstaklingur sem beinir mannvænni reiði sinni að öðrum fullorðnum innan skólans, til að mynda samkennurum.
Mælt með vist á geðdeild
Foreldrar Brendu voru skilin og bjó hún með Wallace, föður sínum, í fremur niðurníddu húsi beint á móti skólanum. Hún þótti sérkennileg í háttum, var afar þögul, átti enga vini og skrópaði ítrekað í skóla. Sumarið fyrir skotárásina hafði hún verið handtekin fyrir að brjótast inn í þennan sama skóla og skjóta á gluggana með loftriffli.
Hún var send í sálfræðimat í kjölfarið. Þegar mál hennar kom fyrir rétt í desember, mánuði fyrir árásina, var í skýrslu sálfræðings eindregið mælt með því að hún yrði vistuð á geðdeild þar sem hún væri hættuleg sjálfri sé, og hugsanlega öðrum. Faðir hennar neitaði aftur á móti að veita leyfi fyrir því og sagðist hann fullfær um að ,,lækna” dóttur sína sjálfur.
Börnin í röðinni
Brenda Ann fór því aftur á heimilið þar sem lítið annað var að finna en hálftómar áfengisflöskur og eina dýnu, sem Brenda deildi með föður sínum. Og byssur. Faðir Brendu elskaði byssur og eyddi hverri krónu í kaup á þeim.
Rétt fyrir klukkan átta að mánudagsmorgni þann 29. janúar 1979, stóðu börn í röð fyrir utan hlið skólans og biðu eftir að skólastjórinn opnaði fyrir þeim.
Brenda horfði á þau í nokkrar mínútur og fór svo og sótti jólagjöfina frá pabba sínum, Ruger 10/22 hálfsjálfvirkan riffil.
Hún miðaði honum út um gluggann hóf að skjóta.
Skólastjórinn, Burton Wragg, reyndi í örvæntingu að börnunum inn fyrir hliðið en var skotinn til bana.
Skólaliðinni Mike Suchar, sem einnig var að draga börn inn fyrir hliðið, var einnig skotinn til bana.
Níu af börnunum slösuðust en það má teljast kraftaverk að ekkert þeirra lést.
Og svo beið hún
Þrátt fyrir að myrða tvo og slasa aðra níu svo að segja strax, hélt Brenda áfram að skjóta á barnahópinn þar til kúlurnar í byssunni voru búnar.
Lagði hún þá riffillinn á gólfið, læsti útidyrahurðinni, lokaði gluggum, settist niður og beið eftir því sem koma skyldi.
Lögreglu dreif að og fljótlega bættust fjölmiðlar í hópinn. Það var augljóst að skotmaðurinn var í húsi Spencer feðginanna, beint á móti skólanum. Sérfræðingar í slíkum viðræðum reyndu að semja við Brendu um uppgjöf í gegnum síma en hún harðneitaði og sagðist vera með nóg af vopnum. Ef að hún kæmi út, kæmi hún út skjótandi.
,,I Don’t Like Mondays“
Hún var aftur á móti frekar til í að spjalla við blaðamenn og þegar að blaðamaður The San Diego Union-Tribune spurði af hverju hún hefði framið ódæðið svaraði hún með ofangreindu. ,
,Mér leiðast mánudagar” varð að eins konar einkenni fyrir ódæði Brendu og er enn þann dag í dag.
Tónlistarmaðurinn Bob Geldof og hljómsveit hans, The Boomtown Rats, sömdu lag um atburðina síðar sama ár og heitir það einfaldlega ,,I Don’t Like Mondays.”
Lagið var gríðarlega vinsælt og sat í efsta sæti breska vinsældalistans i fjórar vikur. Það var einnig afar vinsælt í Bandaríkjunum þrátt fyrir að margar þarlendar útvarpsstöðvar neituðu að spila það, sumar jafnvel árum saman.
Játning og dómur
Brenda gafst upp síðar um daginn. Reyndist hún hvorki undir áhrifum áfengis né neinna annarra efna.
Þrátt fyrir að vera 17 ára var réttað yfir Brendu Ann sem fullorðnum og lögráða einstaklings sökum alvarleika glæpsins. Hún var ákærð fyrir tvö morð og árás með banvænu vopni.
Brenda játaði og var dæmd til 25 ára til lífstíðarvistar í fangelsi.
Brenda Ann hefur margoft farið fram á skilorð en ávallt verið synjað.
Hún hefur haldið því fram að hún hafi aldrei ætlað að myrða neinn. Brenda segist hafa beðið föður sinn um útvarp í jólagjöf en þess í stað fengið skotvopn. Hún segist þess fullviss um að hann hafi vonast til að hún myndi nota byssuna til að fyrirfara sér.
Brenda hefur einnig sagt föður sinn hafa misþyrmt sér kynferðislega en Wallace Spencer neitaði því ávallt. Það fór þó hrollur um marga þegar hann gekk í hjónaband með 17 ára klefafélaga dóttur sinnar sem var sláandi lík Brendu.
En skilorðsnefnd hefur samt sem áður aldrei verið haggað.
Eftirsjá?
Þegar hún stóð frammi fyrir nefndinni árið 2009 fullyrti Brenda enn og aftur að hún hafi aldrei ætlað sér að myrða neinn.
Aðspurð af hverju hún hafi hafið skothríð sagði hún ástæðuna hafa verið að hún hafi viljað deyja og trúað að ef hún skyti á barnaskóla myndi lögregla koma og skjóta hana til bana. Sagðist hún sjálf hafa oft reynt sjálfsvíg en alltaf ,,klúðrað” þeim.
Brenda Ann hefur alltaf haldið fram að hún sjái mjög eftir verknaði sínum. En það gleypa ekki allir við því. Hún hefur til dæmis alltaf haldið fram að hún hafi miðað á bílastæði skólans, ekki börnin, sem augljóslega er ekki rétt.
,,Þjóðsöngurinn“
Bob Geldof er einn af þeim sem er viss um að Brenda hafi alltaf ætlað sér að fremja morð.
,,Hún skrifaði mér bréf og sagðist vera ánægð með það sem hún hefði gert því ég hefði gert hana heimsfræga. Það er ekki gott að lifa með slíku,” sagði Geldof í viðtali nokkrum árum síðar.
Lagið átti eftir að verða óðgeðfelldur ,,þjóðsöngur” unglinga sem síðar áttu eftir að fremja skotárásir í skólum, Geldof til mikils hryllings.
Brenda segist ekki muna eftir hinni frægu mánudagsyfirlýsingu né að hafa sagt við lögreglumanninn sem fylgdi henni í gæslu eftir árásina að ,,það hefði verið æðislega gaman að sjá krakkana skotna.” Lögreglumaðurinn stóð ávallt fastur á sínu með ummæli hennar.
Þegar að Brenda Ann var enn og aftur fyrir framan skilorðsnefnd árið 2001 sagðist hún finna til ábyrgðar í hvert skipti sem skotárás í skóla ætti sér stað.
,,Hvað ef að þau fengu hugmyndina frá mér?”
Brendu Ann Spencer var síðast neitað um skilorð í ágúst síðastliðnum. Hún er sextug í dag og ólíklegt að hún muni nokkurn tíma fá frelsið. En hún segist aldrei ætla að hætta að reyna.