Enskir fjölmiðlar vekja athygli á breyttu útliti Mason Greenwood framherja Manchester United. Hann mætti fyrir dómara í morgun vegna ákæru sem gefin var út um helgina. Greenwood var handtekinn í janúar. Hann er grunaður um kynferðisbrot, heimilisofbeldi og líflátshótanir í garð fyrrum unnustu sinnar.
Hann hafði verið laus gegn tryggingu frá handtöku en var handtekinn á ný um helgina, þar sem hann var sagður hafa sett sig í samband við meint fórnarlamb sitt.
Greenwood var í kjölfarið ákærður, en Englendingurinn ungi eyddi síðustu tveimur nóttum í fangaklefa.
Sem fyrr segir mætti hann svo í réttarsal í dag, sem og fórnarlamb hans.
Greenwood mætti í dag til að staðfesta nafn sitt, fæðingardag og heimilisfang til að hefja réttarhöldin. Viðstaddir fengu svo að heyra um það sem sóknarmaðurinn er sakaður um.
Hann var klæddur í gráan Nike galla en enskir fjölmiðlar hafa teiknað mynd af honum úr réttarsal. Greenwood hefur látið hár sitt vaxa og er með talsvert af skeggi. Eitthvað sem var ekki þegar hann var í sviðsljósinu hjá United.
Síðar í dag heldur málið áfram þar sem tekin verður ákvörðun um það hvort Greenwood verði aftur sleppt lausum gegn tryggingu eða ekki.