Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs KR, hafði lítinn áhuga á að tjá sig um samningamál Kjartans Henry Finnbogasonar, leikmanns liðsins, er 433.is sóttist eftir því í dag.
Kjartan hefur verið í fréttum undanfarna daga en svo virðist sem KR hafi rift samningi hans á dögunum. Vísir sagði frá því fyrir helgi að samningi Kjartans hefði verið rift en KR boðið honum nýjan samning.
Kjartan var ekki í leikmannahópi KR gegn Breiðabliki um helgina en Rúnar Kristinsson þjálfari KR var spurður um framtíð hans eftir leik. Þar sagði hann að að Kjartan væri enn leikmaður KR og ætti ár eftir af samningi sínum.
Í gær blandaði landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson sér í umræðuna. „Af hverju segir þjálfari KR ekki satt og rétt frá?,“spurði Jóhann Berg í færslu á Twitter.
Rúnar var spurður út í stöðu mála í dag. „Það er ekkert að ræða,“ segir hann.
„Viltu ekki bara hringja í Jóhann?“ spyr Rúnar er hann er spurður út í færslu landsliðsmannsins.
„Við ræðum ekki samningamál leikmanna KR við fjölmiðla. Þetta er innanbúðamál og eru öll leyst innan KR, ekki annars staðar.“