„Ég vil fyrst segja að ég samþykki að segja mína sögu til að það megi verða öðrum víti til varnaðar og til ábendingar um það hvað þetta er orðinn harður heimur. Ég þurfti vissulega að kyngja skömminni til þess að segja svo opinskátt frá því að hafa látið glepjast á þennan hátt. Því miður er mikið til af illviljuðu fólki og ég verð að segja að ég finn til með því.”
Hún heitir Hildur og er rétt liðlega sextug kona sem býr í Kópavogi. Fyrir stuttu síðan varð hún illa fyrir barðinu á fjársvikurum og tapaði um 350 þúsund krónum á því sem virtist vera sakleysislegur verðlaunaleikur. Hildur er hennar rétta nafn en hún vill ekki segja nánari deili á sér en hér kemur fram því hún vill ekki að nafn hennar og andlit verði tengt við fjársvik við netleitir í framtíðinni. En henni finnst mikilvægt að koma reynslu sinni á framfæri, öðrum til viðvörunar.
„Já, ég fór ekki vel út úr þessu og skömmin er því miður mikil. En ég vil gjarnan ræða þetta, þó að ekki væri nema til að vera öðrum víti til varnaðar. Það þarf að galopna þessi mál og bankarnir verða að axla ábyrgð, mér er tjáð af mínum viðskiptabanka að ábyrgðin sé alfarið mín af því ég samþykkti tvær færslur með rafrænum skilríkjum. Bankastarfsmaður viðurkenndi við mig að varnir bankans væru langt á eftir færni þessara netþrjóta,“ segir Hildur.
Margir kannast við að hægt sé að fá tilhæfulausar kortafærslur gerðar ógildar en því virðist ekki til að dreifa í þessu tilviki þar sem Hildur notaði rafræn skilríki.
Hildur segir að lögreglan hafi tjáð henni að konur á hennar aldri og eldri séu algengustu þolendur svika af þessu tagi. „En ég veit líka til þess að karlar verði fyrir þessu. En yngra fólkið er meira á verði gagnvart svona löguðu. Þeir herja á þennan eldri aldurshóp á meðan ungar konur, 20 til 35 ára, segja bara: Ertu biluð! Gafstu upp kortanúmerið þitt. En þetta er einhvern veginn ekki í mínum hugarheimi.“
Þetta byrjaði með því að kunningjakona Hildar hafði samband við hana á Facebook Messenger og bað hana um símanúmerið hennar. „Ég hugsaði sem svo að hún hefði bara glatað númerinu mínu. Ég var líka glöð að heyra í henni. Það hvarflaði ekki að mér, sem kom í ljós síðar, að reikningurinn hennar hefði verið hakkaður.“
Kunningjakonan sagðist ætla að senda henni sms svo hún gæti tekið þátt í leik á Amazon, sjálf hefði hún unnið ágætis upphæð. Málfar kunningjakonunnar var eðlilegt og sannfærandi í byrjun og það var ekki fyrr en lengra var liðið á ferlið að skilaboðin urðu vélræn og stirð, „svona eins og copy/paste“, lýsir Hildur því, en þá hélt hún að konan væri að afrita skilaboð frá stjórnendum leiksins.
„Síðan koma fyrirmæli um að slá inn kóða sem sendur var í farsímann og fékk ég þá númer með sms sem kallaðist Facebook Confirmation Code. Augnabliki síðar í samtalinu kom mynd af farsíma, merkt Amazon og þar stóð: Til hamingju Hildur, þú hefur unnið 110.350.- og að peningarnir verði færðir á kortið mitt. Var svo beðin um að senda mynd af kreditkortinu, báðum hliðum og mér sýnd mynd af korti kunningjakonunnar þar sem hún heldur á sínu korti. Ég sá að þetta var mynd af henni sem gerði það að verkum að ég treysti en spyr þó hvort hún sé viss og hvort þetta sé ekki netsvindl. Fæ þá það svar að þetta sé alveg öruggt og mynd birtist af reikningi þar sem nokkrir með íslensk nöfn höfðu fengið inngreiðslur. Hún segir mér að gera eins. Hraðinn er mikill svo ekki gefst tími til að hugsa rökrétt en enn spyr ég hvort það sé gáfulegt að sýna kortið sitt og fæ þá það svar að upplýsingar séu trúnaðarmál! Ég geri þetta og er þá sagt að staðfesta næsta númer í sms. Þá segist ég vilja hringja í hana en er sagt að bíða aðeins og slá inn 8 stafa kóða enn á ný.“
Hildur segir að kunningjakona hennar sé í þannig að starfi að hún hafi ekki alltaf tíma fyrir símtöl og því virtist henni ekki óeðlilegt að bíða:
„Í leiðslu samþykki ég nokkra kóða en er þá spurð um leyninúmer. Þá er ég farin að efast verulega enda orðið tímabært og spyr hana hvort þetta örugglega hún. „Auðvitað“ er svarið og viðkomandi kveðst vera að reyna að „sannreyna þetta“ og biður mig um að samþykkja enn einn kóðann sem ég geri en segi um leið að ég sé ekki að kaupa neitt þar sem á þessari stundu hafði komið sms um heimild veitta án korts og fyrri hluti míns taps var fallinn upp á 155 þús. kr.“
Hildur tapaði um 350 þúsund krónum í tveimur færslum sem hún samþykkti með rafrænum skilríkjum.
„Á þessum tímapunkti er mér sagt að nú byrji flutningurinn yfir á kortið mitt, sem mér finnst vissulega kjánalegt nú þegar ég hugsa skýrt þar sem ég skuldaði þessa upphæð. Enn er ég beðin um kóða og sagt að þetta sé að klárast og svo hringi hún í mig. Ég segi þá að það hafi verið tekið út af kortinu mínu en ekki lagt inn en svarið er þá að það sé ekkert vandmál því það sé á leiðinni inn aftur! Ég sendi henni þarna einhver talskilaboð og segist vera hætt en viðkomandi segist ekki geta hlustað á talhólf núna. Þá hafði ég þegar samþykkt annan kóða og augnabliki síðar féll önnur upphæð, 180 þús. á kortið mitt. Á þessum tímapunkti er tónninn breyttur og skipanir koma um að gera eins og viðkomandi segi því annars fái ég ekki upphæðina til baka. Þarna voru ekki lengur neinar efasemdir í mínum huga um að ég hafði látið glepjast illa og allar mínar varnir á bak brotnar. Þá er gerð tilraun til að senda mér enn eitt númarið og ítrekað að ef ég samþykki ekki þá muni viðkomandi „taka yfir allt“.“
Kunningjakonan hafði síðan samband við Hildi og tjáði henni að Facbeook-reikningurinn hennar hefði verið hakkaður. „Þeir hefðu tekið yfir reikninginn hennar og reynt að ná í kortanúmer vina hennar, sem hófst með spurningunni um símanúmerið.“
Sem fyrr segir setur Hildur spurningamerki við þá afstöðu bankans að segjast ekki getað fryst þessar færslur. En henni er meira í mun að nota þetta tækifæri til að vara fólk við og gefa aldrei ókunnugum aðila upp kortaupplýsingarnar sínar. Sem fyrr segist virðist yngra fólk vera meira á varðbergi fyrir svikum af þessum tagi en hinir eldri.
„Ég veit ekki hvað ég hélt að þetta gæti verið. Því ég tók ekki þátt í neinu,“ segir Hildur. Hún segir að ungar konur hafi hraunað yfir sig fyrir óaðgæslu hennar þegar hún hefur sagt sögu sína á Facebook, en það hefur hún gert til að vara aðra við. „Skömmin fylgir mér,“ segir hún en henni finnst mikilvægt að yfirstíga skömmina til að vara annað fólk við svo það lendi ekki í því sama.
„Það getur komið manni í koll að vera auðtrúa,“ segir Hildur. Hún veit um fólk sem er að tapa miklum fjárhæðum á þessum svikafaraldri sem nú herjar á Facebook-notendur. Skilaboðin eru einföld: Ekki gefa upp kortaupplýsingarnar þínar! Ekki svara skilaboðum þar sem fólk er að biðja um símanúmerið sitt. Það er enginn verðlaunaleikur í gangi, þetta er bara svindl.