Óshlíðarmálið svonefnda vekur furðu en í gær tilkynnti Lögreglan á Vestfjörðum að rannsókn þess væri lokið með þeirri niðurstöðu að hinn látni, Kristinn Haukur Jóhannesson, hefði látist af slysförum og ekkert saknæmt hefði átt sér stað í tengslum við lát hans.
Kristinn lét lífið í bílslysi sem varð í september árið 1973 er leigubíll fór út af Óshlíðarvegi og valt niður hlíðina. Tvær aðrar manneskjur voru í bílnum, leigubílstjórinn og ung stúlka sem var farþegi, en fólkið slapp lítið sem ekkert meitt frá slysinu. Fólkið gekk frá Óshlíðinni og inn í Hnífsdfal, komst í hús þar og tilkynnti um slysið. Kristinn varð eftir í myrkrinu í Óshlíðinni. Er lögregla kom á vettvang slyssins fannst Kristinn látinn.
Hálfbróðir Kristins heitins og sonur Kristins hófu að rannsaka málið fyrir um tveimur árum. Ljósmyndir af vettvangi vöktu tortryggni þeirra því þeim þótti bíllinn ekki bera þess merki að hafa oltið niður hlíðina og fannst hann ótrúlega heillegur. Við þetta bætist hinn sláandi munur á ástandi þeirra sem voru í bílnum, þar sem bílstjórinn og kona í framsæti sluppu nær ómeidd en Kristinn lét lífið. Þess má geta að Kristinn er sagður hafa legið í aftursæti bílsins þegar slysið varð og verið mjög drukkinn.
Mennirnir tveir settu sig í samband við Lögregluna á Vestfjörðum í apríl árið 2021 og óskuðu eftir því að málið yrði tekið upp að nýju. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafnaði þeirri beiðni á þeim forsendum að engin ný gögn hefðu borist. Mennirnir kærðu þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem lagði fyrir lögregluna á Vestfjörðum að taka málið til rannsóknar og m.a. skða ljósmyndir af bílflakinu.
Í rannsókn sinni fékk lögreglan heimild til að grafa upp líkamsleifar Kristins og var sú aðgerð framkvæmd þann 27. maí. Lögreglan sendi frá sér tilkynningu um málið sem, eins og nærri má geta, vakti landshygli. Það er stór ákvörðun að láta grafa upp líkamsleifar manns í þágu lögreglurannsóknar, hvað þá hálfri öld eftir atburðinn.
Leigubílstjórinn sem ók bílnum er enn á lífi og tjáði sig um þessa ákvörðun yfirvalda við fjölmiðla. Var hann afar ósáttur við hana og taldi að verið væri að klína á sig manndrápi.
Síðastliðið sumar ræddi DV Óhlíðarmálið við sérfræðing í refsirétti, Jón Þór Ólafsson. Hann taldi annað útilokað en að málið væri rannsakað sem manndrápsmál því fyrningarákvæði hegningarlaganna útilokuðu aðra möguleika, allar aðrar mögulegar sakir í málinu væru fyrndar.
En samkvæmt tilkynningu Lögreglunnar á Vestfjörðum í gær er niðurstaða þessarar rannsóknar sú sama og rannsóknarinnar sem gerð var upphaflega eftir lát Kristins árið 1973: Hann lést af slysförum. Í tilkynningunni segir:
„Með hliðsjón af niðurstöðu réttarlæknis og sömuleiðis öðrum þeim þáttum sem rannsakaðir voru hefur lögreglustjórinn á Vestfjörðum ákveðið að hætta rannsókn málsins. En niðurstaða rannsóknarinnar er sú að ekkert bendi til annars en að farþeginn hafi látist af afleiðingum umferðarslyss. Eins og ávallt er ákvörðun lögreglustjóra um lyktir mála kæranleg til ríkissaksóknara.“
Niðurstaðan vekur þær spurningar hvort yfirvöld hafi hlaupið á sig þegar ákveðið var að hefja rannsóknina og grafa upp líkamsleifar Kristins. Hvaða gögn lágu þeirri ákvörðun til grundvallar? DV bar þetta undir Helga Gunnlaugsson, afbrotafræðing og prófessor við Háskóla Íslands:
„Ég veit ekki hvað rak lögreglu af stað. Það hlýtur að hafa verið eitthvað haldfast sem greining svona löngu síðar gæti sýnt fram á.“ Helgi bætir hins vegar við að það sé mjög langsótt að staðfesta tilgátu með greiningu svo löngu eftir atburðinn eins og hér um ræðir.
„Svo kemur á daginn að það eru engin merki um neitt annað en það þetta hafi verið hörmulegt bílslys. Við vitum ekki annað,“ segir Helgi.
Lögreglan á Vestfjörðum hefur gefið út að hún muni ekki tjá sig frekar um málið. Óhlíðarmálinu er lokið. Kristinn Haukur lést af slysförum rétt eins og allir héldu allt þar til tveir menn fóru að skoða ljósmyndir af bílflaki fyrir tveimur árum.