Robert Lewandowski, leikmaður Barcelona, er enn sár eftir ákvörðun sem var tekin árið 2020 er COVID-19 var upp á sitt versta.
Lewandowski hefði líklega verið valinn besti leikmaður heims árið 2020 en ákveðið var að hætta við verðlaunaafhendinguna vegna kórónuveirunnar.
Það hefði verið í fyrsta sinn sem Lewandowski vinnur þessi verðlaun en hann átti stórkostlegt ár og tímabil og skoraði þar 55 mörk í 47 leikjum.
Því miður fyrir sóknarmanninn voru þau verðlaun aldrei afhent en á þessu ári eru þau að öllum líkindum á leið til Karim Benzema, leikmanns Real Madrid.
Lewandowski viðurkennir að Benzema eigi verðlaunin skilið en virðist enn vera svolítið sár yfir því að hafa ekki fengið sitt á sínum tíma.
,,Hann er líklega einn af þeim líklegustu til að vinna verðlaunin, ef þeir hætta ekki við þau auðvitað,“ sagði Lewandowski.
,,Ef ekki þá mun hann að öllum líkindum vinna Ballon d’Or á þessu ári.“