Fiskmarkaðurinn er fyrsti staðurinn hennar Hrefna Sætran og má með sanni segja að Hrefna og félagar hennar hafi blómstrað á þessum 15 árum.
„Fiskmarkaðurinn er fyrsti veitingastaðurinn minn og ég var búin að stefna að því lengi að opna stað þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára þegar við opnuðum. Ég kynntist meðeiganda mínum á Sjávarkjallaranum þegar ég var yfirkokkur þar og við byrjuðum snemma að plana það að opna stað saman sem varð að veruleika árið 2007,“ segir Hrefna Sætran og er alsæl með hve vel hefur tekist til.
Einstök upplifun í matargerð í forgrunni
Hefur matseðillinn og þjónustan breyst mikið á þessum árum? „Það hefur mjög margt breyst á síðustu 15 árum en aðal áherslan okkar er alltaf sú sama og markmiðið er alltaf að fólk verði fyrir upplifun þegar það mæti til okkar. Við erum alltaf í takt við það sem er að gerast í stefnum og nýjungum og erum stanslaust í vöruþróun. Við erum samt trú okkur sjálfum og hlustum á kúnnan okkar. Fiskmarkaðurinn hefur alltaf lagt mikla áherslu á að veita frábæra þjónustu enda er það partur af upplifuninni á því að fara á góðan veitingastað. Markmiðin okker er því alltaf sú sömu og voru fyrir 15 árum, það veita góða þjónustu og bjóða upp á einstaka upplifum í matargerð,“ segir Hrefna.
Er einhver réttur sem er á matseðlinum sem hefur verið frá upphafi? „Eins og ég nefndi þá hlustum við á kúnnana okkar, sumir hafa verið að koma til okkar í 15 ár vegna vinsæla rétta. Það má til að mynda nefna ostakökuna frægu, Volcano sushirúlluna og þorskinn.“