Þrjár konur stíga fram í nýjasta þættinum af Eigin Konur og segja Auðunn Lúthersson hafa brotið gegn sér kynferðislega. Þetta eru þær Ýr Guðjohnsen, Thelma Tryggvadóttir og Katla Ómarsdóttir. „Mín upplifun er sú að hann er ofbeldismaður. Hann er ekki dólgur eða með dónaskap, eða léleg samskipti. Þetta er refsivert athæfi,“ segir Ýr.
Auðunn, sem er betur þekktur undir listamannsnafninu Auður, er nýlega kominn aftur í sviðsljósið en hann dró sig í hlé eftir að ásakanir komu fram gegn honum um meiðandi framkomu. Hann hóf endurkomu sína í vor með viðtali í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 þar sem hann sagðist vilja taka ábyrgð á „særandi og óþægilegri“ hegðun sem hann hafi sýnt af sér. Nýlega gaf hann síðan út lag með Bubba Morthens og stuttu síðar gaf hann út lag með Jóni Jónssyni.
Konunar þrjár upplifðu viðtalið í Íslandi í dag sem blauta tusku í andlitið og fannst þeim hann þar gera lítið úr því ofbeldi sem hann hafi beitt þær.
Hún sextán, hann töluvert eldri
Ýr er ein af þeim fyrstu sem greindu frá ósæmilegri hegðun Auðuns. „Hann hefur aldrei komið til mín og beðist afsökunar. Hann hefur haft samband við mig en hann hefur ekki beðist afsökunar. Þetta var eitthvert samtal, hann vildi vita mína upplifun en hann vildi ekki veita henni viðurkenningu,“ segir hún í Eigin Konum. Hún leitaði til Stígamóta vegna hegðunar Auðuns gagnvart henni.
Í Íslandi í dag vakti Auðunn athygli á því að hann hafi aldrei verið kærður til lögreglu en engin þessara þriggja kvenna gerði það. Thelma segir að það hafi aldrei verið inni í myndinni. Hún var sextán og sautján ára þegar hann hafi brotið á henni og hann töluvert eldri.
Það dýrkuðu hann allir
„Hann var í alvörunni alls staðar á þessum tíma. Hann var frægasti listamaður á Íslandi, það dýrkuðu hann allir. Það var ekki séns. Og ég hefði ekki getað það. En það þýðir ekki að ég viti ekki minn sannleika og ég veit nákvæmlega hvað gerðist,“ segir hún.
Katla fór í áfallameðferð hjá sálfræðingi vegna hegðunar Auðuns gagnvart henni. „Mikill kvíði, mikil hræðsla. Og svo er þetta náttúrlega líka bara ógeðslega erfitt að segja frá ofbeldi sem einn frægasti tónlistarmaður Íslands beitti þig. En við þurfum að öskra svo að konur þurfi ekki að öskra að eilífu,“ segir hún.
Skylda að vekja athygli á þessu
Þá ræðir Stundin einnig við tvær aðrar konur sem segja Auðunn hafa áreitt sig. Önnur þeirra er Signý Guðmundsdóttir sem segist hafa kynnst honum árið 2018.
„Það að einhver maður sé söngvari og líti vel út þarf ekki að koma í veg fyrir að hann sé ofbeldismaður. Mér finnst mér bera skylda til að vekja athygli á þessu,“ segir Signý í samtali við Stundina.