Sky Sports hefur neyðst til að biðjast afsökunar eftir atriði sem birtist á sjónvarpsstöðinni í vikunni.
Þar var grínistinn Elis James í aðalhlutverki en hann gerði grín að útliti Steve Cooper, stjóra Nottingham Forest og fékk mikla gagnrýni í kjölfarið.
James þykir hafa tekið grínið of langt en hann lék sjálfan sig rangeygðan og bauð upp á ansi móðgandi eftirhermu sem fór fyrir brjóstið á mörgum.
Samskiptamiðlar loguðu eftir þetta grín James en í senunni var hann að kynna Serge Aurier til leiks sem nýjan leikmann enska liðsins.
,,Hvernig í andskotanum hélt einhver að þetta væri góð hugmynd?“ skrifaði einn aðili á Twitter og bætir annar við að grínið hafi alls ekki verið fyndið heldur langt yfir strikið.
Atriðið var sýnt í Fantasy Football þætti Sky Sports sem hefur nú beðist afsökunar og viðurkennir að um slæmt grín hafi verið að ræða.
Í atriðinu var aðallega gert grín að viðskiptum Forest í sumar en félagið fékk til sín yfir 20 leikmenn eftir að hafa tryggt sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni.